„Það var brugðist við. Kvörtunin kom um um miðjan desember og málið sett í farveg strax um áramót,“ segir Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, um úrsögn Sifjar Huldar úr bæjarstjórn og bótakröfu hennar á hendur Ísafjarðarbæ vegna eineltis sem hún segist hafa orðið fyrir og ekki hafi verið brugðist við því með viðeigandi hætti.
Sif Huld hefur verið bæjarfulltrúi undanfarin þrjú ár en er framkvæmdastjóri Byggðasamlags um málefni fatlaðra og kom kvörtunin þaðan að sögn Birgis, en ekki vegna eða tengt störfum hennar sem bæjarfulltrúa.
Birgir segir að utanaðkomandi fyrirtæki, Attentus, hafi verið ráðið til að fara yfir málið og þau hafi skilað sínum tillögum eftir áramót og bærinn hafi fylgt þeim.
„Það er hins vegar þannig að maður gerir ekkert ráð fyrir því að allir séu sáttir. Það var reynt að vinna þetta mál eins vel og faglega og mögulegt er,“ segir Birgir.
Hvað varðar bótakröfuna segir hann að það verði skoðað nánar og hann geti ekki tjáð sig frekar um hana núna.

Erfið og flókin mál
Sif Huld segir í yfirlýsingu sinni að hún hafi óskað eftir sáttameðferð en að henni hafi verið tilkynnt að hinn aðilinn hafi ekki viljað það, auk þess sem bærinn hafi verið seinn að svara henni með það.
„Það voru sex leiðir til úrbóta í tillögum Attentus, bæði hvað varðar Ísafjarðarbæ og Byggðasamlag um málefni fatlaðra, sem Sif er starfsmaður hjá, og það hefur verið sett í farveg að vinna bót á því sem betur mátti fara,“ segir Birgir.
Hann segir að hann viti ekki til þess að einstaklingurinn sem um ræðir hafi átt í erfiðum samskiptum eða erfiðleikum við aðra aðila.
Heldurðu að þið hefðuð getað brugðist hraðar við?
„Svona mál eru mjög erfið og flókin. Ég er búin að líta til baka og er búin að spá hvað við hefðum getað gert öðruvísi eða betur og ég er ekki viss um að það hefði verið málinu til framdráttar að vinna það hraðar. Svona mál þurfa tíma. Niðurstaðan lá fyrir í mars. Ég held að það sé ekki óeðlilegur málsmeðferðartími í svona málum,“ segir Birgir að lokum.