Forsætisnefnd Alþingis hefur vísað frá kvörtun sem varðar ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata um merkingar á búningum lögreglumanna.

Þetta kemur fram á vef Alþingis en þar segir að forsætisnefnd hafi afgreitt erindi á fundi sínum þann 24. nóvember sem varðaði meint brot Þórhildar á siðareglum alþingismanna.

Ekki kemur fram á vef Alþingis hver sendi erindið en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var það lögreglukonan sem bar merkin umdeildu sem kvartaði til forsætisnefndar.

Kvörtunin varðaði ummæli sem Þórhildur Sunna lét falla á þingfundi þann 21. október síðastliðinn þar sem hún ræddi áðurnefndar merkingar sem tengdar hafa verið við öfgahópa og kynþáttahyggju.

Þá varðar málið einnig ákall hennar um að fulltrúar lögreglunnar kæmu á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að ræða kynþáttahyggju innan lögreglunnar.

Ar­in­björn Snorra­son, formaður Lög­reglu­fé­lags­ins í Reykja­vík, er einn þeirra sem brugðust illa við viðbrögðum Þórhildar í málinu og sagði eðilegt að forsætisnefnd tæki það upp við siðanefnd Alþingis að ummæli hennar yrðu tekin til skoðunar.

Forseta settar skorður

Niðurstaða forsætisnefndar er sú að ekki sé tilefni til að taka erindið til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn.

Í bréfi forsætisnefndar til málshefjanda segir að í málinu beri að líta til þess að málið varði tjáningu þingmanns sem lúti fundarstjórn forseta Alþingis og að forsetum sé settar vissar skorður þegar kemur að afskiptum sínum af tjáningu þingmanna.

Þá hafi það grundvallarþýðingu að Alþingi sé vettvangur fyrir umræður í lýðræðislegu þjóðfélagi sem endurspeglist í ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi Alþingis. Ákvæðinu sé meðal annars ætlað að tryggja frjálsar umræður í þinginu.

Tjáningarfrelsi þingmanna njóti ríkrar verndar

Fram kemur í svarinu að þingmenn njóti ríkrar verndar til þátttöku í opinni og frjálsri stjórnmálaumræðu í lýðræðisþjóðfélagi.

„Telji almennur borgari að forseti hafi ekki gætt þess að þingmenn gæti góðrar reglur í máli sem hann varðar verður að hafa í huga að athafnir eða athafnaleysi forseta við stjórn þingfunda sæta ekki endurskoðum.“

Ágreiningur um slíkt verði því ekki borinn undir forsætisnefnd eða leitað álits siðanefndar á honum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem reynt er að vísa ummælum Þórhildar Sunnu til siðanefndar Alþingis. Í fyrra taldi siðanefnd ummæli hennar um Ásmund Friðriksson og akstursgreiðslur hans brjóta í bága við siðareglur.

Fréttin hefur verið uppfærð.