Kvörtun lítillar endurskoðunarstofu á höfuðborgarsvæðinu vegna útvistunar ríkisins á eftirliti á starfsemi endurskoðenda er komin á borð Samkeppniseftirlitsins.
Á næstu dögum ræðst hvort kvörtunin verður skoðuð nánar eða að efni hennar verður vísað frá, en „það væri með ólíkindum ef eftirlitið tæki hana ekki fyrir,“ segir viðkomandi endurskoðandi sem ekki vill láta nafns síns getið.
Málavextir eru þeir, eins og rakið var í Fréttablaðinu í síðustu viku, að ríkið útvistar opinberu eftirliti á endurskoðendafyrirtækjum til stórra fyrirtækja í sömu grein sem fá þannig opinbert vald til að leggja stein í götu keppinautar síns á markaði, hægja á rekstri hans og auka kostnað, en tímagjaldið er nú 23.590 krónur, sem litlar stofur verða með þessum hætti að greiða keppinautum sínum.
Svona verklag í boði ríkisvaldsins feli í sér „opinberar samkeppnishömlur sem séu í andstöðu við tilgang og markmið samkeppnislaga“, eins og segir í kvörtuninni.
Þar segir jafnframt að það sé þvert á lög um endurskoðendur að starfandi endurskoðendur skoði kollega sína. Engu að síður útvisti endurskoðendaráð verkefninu til starfandi endurskoðenda. „Í því felst að keppinautar eru fengnir til þess að framkvæma gæðaeftirlit hjá hver öðrum fyrir tilstilli endurskoðendaráðs,“ eins og segir í kvörtuninni til Samkeppniseftirlitsins, sem nú liggur á borði þess.