Sjö stéttar- og fagfélög hafa rætt við Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra vegna fjölda umkvartana sem þeim hafa borist frá sínum skjólstæðingum er varða Íslensku óperuna undir stjórn núverandi óperustjóra, Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur.

Félögin eru Félag íslenskra hljómlistarmanna, FÍT - klassíska deild FÍH, Rithöfundasamband Íslands, Félag íslenskra leikara, Félag leikstjóra á Íslandi, Tónskáldafélag Íslands og Klassís - fagfélag klassískra söngvara á Íslandi.

Félögin staðfesta í samtali við Fréttablaðið að þeim hafi borist umkvörtunarefni frá félagsmönnum sínum, tónlistarfólki, söngvurum og öðru listafólki, vegna óperunnar og óperustjóra sem varða mál eins og einelti, atvinnuróg og samningsbrot. Einstaklingar, sem leitað hafa til félaganna, staðfesta þetta einnig við Fréttablaðið.

Ekki allt með felldu

Þóra Einarsdóttir söngkona ræddi við Mannlíf nú á dögunum um stefnu hennar gegn Íslensku óperunni vegna vangoldinna launa við uppfærslu óperunnar Brúðkaup Fígarós síðastliðið haust. Málið er þó ekki einstakt en allir helstu söngvarar, sem léku aðalhlutverkin í sýningunni, hafa leitað til stéttarfélaga vegna samningsbrota af hálfu Íslensku óperunnar og hyggjast stefna óperunni vegna málsins.

Málið snýst um að Íslenska óperan gerði verktakasamninga við söngvara í Brúðkaupi Fígarós þar sem vísað er í kjarasamning FÍH en greiddi svo ekki samkvæmt þeim samningi.

„Þetta var ekki eðlilegt og fór langt fram úr öllum mörkum.“

FÍH, Félag íslenskra hljómlistarmanna, er stéttarfélag sem sér um hagsmuni tónlistarfólks og heldur utan um alla kjarasamninga.

Steinunn Birna sagði í viðtali við Sigurlaugu M. Jónasdóttur í útvarpsþættinum Segðu mér á Ríkisútvarpinu þann 6. mars:

„Við greiddum þeim hærri laun í heildina en þessi FÍH samningur frá árinu 2000 segir til um.“ Þar tók hún fram að hún hefði sent bréf á Gunnar Hrafnsson, formann FÍH, um að setjast niður og útkljá þetta mál. Gunnar segir hins vegar að hann hafi meðal annars lagt fram sáttatilboð en ekki hafi náðst lending í því máli.

Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH.

Steinunn Birna segir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að vegna málshöfðunarinnar hafi ekki náðst málamiðlun í þeim ágreiningi.

„Við teljum að undirritaðir verktakasamningar við söngvarana séu bindandi og rétt að benda á að heildargreiðslur Íslensku óperunnar til söngvaranna í Brúðkaupi Fígarós voru hærri en taxtar FÍH gera ráð fyrir,“ segir Steinunn.

Þóra segir þó málið ekki einungis snúast um greiðslur heldur einnig um æfingartímann.

„Ástæða þess að við leituðum til okkar stéttarfélags var að vinnuálag fór langt fram úr þeim ákvæðum sem samningur okkar segir til um. Óperan féllst ekki á að þeim bæri að greiða fyrir yfirvinnu. Þess vegna leituðum við til FÍH. Þá kom í ljós að ekki var allt með felldu og samningur Óperunnar og FÍH hefur verið þverbrotinn. Óperan telur sig ekki þurfa að fara eftir þessum samningi og vill gera hlutina öðruvísi. Við, söngvararnir í sýningunni, höfum farið í einu og öllu eftir ráðleggingum okkar stéttarfélags í þessu máli,“segir Þóra í samtali við Fréttablaðið.

Þóra Einarsdóttir söngkona stefnir óperunni.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hneig niður af álagi

Þóra segir álagið hafa verið gríðarlegt fyrir söngvara sem ekki fengu greitt fyrir yfirvinnu. Reglur gilda um 24 klukkustunda hámark á æfingartímum til að vernda rödd söngvara en æfingartími fór oft fram úr 40 klukkustundum á viku.

„Þetta var ekki eðlilegt og fór langt fram úr öllum mörkum,“ segir Þóra en hún hneig niður af álagi á einni æfingunni.

„Kjörin hafa verið skert mikið síðustu árin. Ég hef alltaf viljað leggja mitt af mörkum og haft skilning á erfiðum rekstri óperu á Íslandi og hef lagt hug minn og hjarta í öll þau verkefni sem ég hef tekið að mér fyrir óperuna.“

Í samningi söngvara við Íslensku óperuna, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er tekið fram að samningurinn sé trúnaðarmál. Söngvarar hafi því verið tvístígandi um að sýna stéttarfélagi sínu samninginn vegna klausunnar. Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH, segir þetta hafa enga þýðingu að mati lögfræðings. Þetta sé tilraun til að koma í veg fyrir að söngvarar beri saman laun sín.

„Mér finnst skortur á gagnsæi í rekstri stofnunarinnar. Sagt er að reksturinn sé í járnum vegna þess að listamenn séu of dýrir en við sjáum yfir árabil að laun þeirra virðast hafa farið línulega lækkandi. Mér fyndist áhugavert að ársskýrslur óperunnar yrðu gerðar opinberar svo hægt væri að meta reksturinn. Hvað er til dæmis hlutfall stjórnunarkostnaðar og hvað er hlutfall flytjendakostnaðar?“

Gunnar segir að í gildi sé samningur milli FÍH og Óperunnar frá 4. desember 2000 sem aldrei hafi verið sagt upp og fyrri óperustjórar hafi virt.

Samkvæmt fjárlögum fær Íslenska óperan rúmlega 200 milljónir en í gegnum árin hefur verið sett upp ein ópera að meðaltali á ári ásamt öðrum verkefnum.

Íslenska óperan sagði söngvurum að launasamningar væru trúnaðarmál.

Margir hafa svipaða sögu að segja

Umræður hafa skapast á samfélagsmiðlum en ótalmargt fagfólk og söngvarar hafa svipaða sögu að segja um reynslu þeirra af Íslensku óperunni.

Til að mynda borgar Íslenska óperan söngvurum sem koma fram í Aríu dagsins, röð tónleika í samkomubanni, 30 þúsund krónur en lágmarkstaxti er um 50 þúsund krónur. Þá sé erfitt að segja nákvæmlega um hvernig ætti að semja um slík laun þar sem ekkert kemur fram um laun varðandi streymi.

Íslenska óperan staðfestir þetta og segist Steinunn Birna reiðubúin til að endurskoða þá greiðslu.

„Það er rétt að samið var við söngvara um 30.000 krónur fyrir „Aríu dagsins“ auk eigin afnota af upptökunni. Mér vitanlega er ekki til taxti um nákvæmlega sambærilegt verkefni, en sjálfsagt að endurskoða þessa greiðslu ef svo reynist vera.

Myndband: Aría dagsins, viðburður Íslensku óperunnar í samkomubanni.

Kórsöngvarar í verkinu Brothers, sem Íslenska óperan setti upp í Búdapest, fengu ekki greitt fyrir verkefnið. Aðspurð segir óperustjóri að kórmeðlimir hefðu fengið ferðina og uppihald greitt ásamt dagpeningum.

„Kórmeðlimir ákváðu að taka þátt í verkefninu á þessum forsendum og bæði ferðin og sýningin í alla staði mjög vel heppnuð,“ sagði Steinunn.

Búið er að stofna undirskriftalista til að lýsa yfir stuðningi við söngvara í kjarabaráttunni.

„Við undirrituð styðjum Þóru Einarsdóttur í máli hennar gegn Íslensku óperunni og förum fram á að gildandi samningur milli FÍH og Íslensku óperunnar sé virtur og ekki greitt undir þeim lágmarkstöxtum sem þar er kveðið á um,“ segir í lýsingu undirskriftalistans.

Fjögurra milljóna króna styrkur dropinn sem fyllti mælinn

Ríkisstjórnin samþykkti í fyrra að veita Íslensku óperunni fjögurra milljóna króna styrk á sama tíma og kjarabarátta söngvara var í gangi.

Þetta var þremur vikum eftir að fag- og stéttarfélögin höfðu haft samband við Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um kvartanir um samningsbrot.

Milljónirnar sem ríkisstjórnin veitti Íslensku óperunni voru ekki til þess að leiðrétta laun söngvara, heldur til að setja upp nýtt verk eftir Daníel Bjarnason. Þar kom fram að verkið væri fyrir 40 ára afmæli óperunnar þrátt fyrir að það hafi verið árið 2018 en Garðar Cortes stofnaði óperuna árið 1978.

Ráðherra vissi því af óánægju fagaðila af starfsemi óperunnar og kjarabaráttu söngvara þegar hún samþykkti að greiða Íslensku óperunni fjórar milljónir fyrir fyrrnefnda uppsetningu.

Félögin höfðu í kjölfarið samband við ráðherra um málið og ítrekuðu óskir sínar um að ráðuneytið myndi láta framtíðarskipan óperumála sig varða. Þau höfðu áður bent ráðherra á að óperustjóri hefðu í umboði stjórnar ÍÓ tekið á sig ábyrgðir vegna verkefna langt út fyrir þær fjárveitingar sem samningur við ráðuneytið heimili.

„Ef þær skuldbindingar eru sannarlega með vitund ráðuneytis og starfsmanna þess þá er það skýlaust brot á almennum reglum um fjármál ríkisins,“ segir í bréfinu. Ennfremur óskuðu félögin eftir því að ráðstöfun af almannafé fari eftir „eðlilegum leiðun en sé ekki í höndum einkaaðila.“

Lilja Alfreðsdóttir lagði áherslu á fundinum að hún ætlaði að kanna samninga við óperuna og hvernig þeim væri framfylgt.

Ráðherra vissi því af óánægju fagaðila af starfsemi óperunnar og kjarabaráttum söngvara þegar hún samþykkti að greiða Íslensku óperunni fjórar milljónir fyrir uppsetningu verki eftir Daníel Bjarnason.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fagfólki ýtt úr stjórn

ÍÓ er menningarstofnun sem rekin er fyrir almannafé en vert er að nefna að enginn fagaðili situr í stjórn óperunnar. Það hefur reynst illfært fyrir fagfólk að komast að í stjórnina síðustu ár, jafnvel þó þeir hafi hlotið tilnefningu í samræmi við samþykktir. Að sögn Ásu Fanneyjar Gestsdóttur, söngkonu og formanns Vinafélags Íslensku Óperunnar, er afar leitt hvað samstarfið við ÍÓ hefur gengið stirðlega.

Stjórn Íslensku óperunnar breytti síðasta haust samþykktum sínum á lokuðum fundi og hafa ekki virt tilnefningar aðalfundar VÍÓ. Ása segir þróunina sorglega því áður fyrr hafi söngvarar yfirleitt átt sæti í stjórn, enda Íslenska óperan upphaflega stofnuð af og stjórnað af söngvurum til margra ára. Það geti aðeins verið óperunni til góðs að hafa ráðgjafa innanborðs sem þekki vel til.

Með fagaðilum er átt við um söngvara, hljómsveitarstjóra sem stjórnað hafa óperum, leikstjóra sem leikstýrt hafa óperum, óperuþjálfara og aðra sem starfað hafa við óperuhús í listrænum störfum.

Vinafélagið, sem hefur verið starfandi frá stofnun Íslensku óperunnar, hefur í gegnum árin haft það hlutverk að veita óperustjóra aðhald sem og að sjá um margar hliðar á rekstri óperunnar. Fram til þessa hefur Vinafélagið ávallt skipað tvo aðila í fimm manna stjórn ÍÓ. Nú virðist hafa orðið breyting á þessu fyrirkomulagi því ÍÓ hefur neitað að samþykkja tilnefningar aðalfundar Vinafélagsins og bera við breyttum samþykktum.

Una Steinsdóttir fyrrverandi formaður (önnur frá hægri) og Ása Fanney söngkona núverandi formaður (lengst til vinstri).

Una Steinsdóttir, fyrrverandi formaður Vinafélagsins, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu eftir að Ása Fanney var kjörinn formaður á aðalfundi haustið 2018. Á sama fundi var Ása tilnefnd í stjórn ÍÓ. Stjórnin kaus hins vegar að virða ekki tilnefninguna og taldi að Una ætti að sitja út tveggja ára tímabil.

Þegar tímabil Unu kláraðist í stjórninni og Ása var endurkjörin var búist við að Ása og Gunnar Guðbjörnsson myndu í framhaldinu taka sæti í stjórninni. Stjórn ÍÓ breytti þá skyndilega eigin samþykktum til að leyfa núverandi stjórnaraðilum að velja næstu aðila í stjórn. Þetta gerði stjórn Íslensku óperunnar á lokuðum fundi.

Óperustjóri kynnti í framhaldinu stofnun nýs fulltrúaráðs og var hún fundarstjóri á kynningarfundi um það. Vinafélagið myndi eiga tvö sæti í ráðinu ásamt starfsfólki ÍÓ og öðru fagfólki og myndi svo það fulltrúaráð tilnefna einn aðila í stjórn. Þetta myndi þar með draga úr áhrifum Vinafélagsins.

Fagfélögin hafa kallað eftir samþykktum og öðru sem myndi staðfesta lögmæti hins nýstofnaða Fulltrúaráðs Íslensku óperunnar en ekki fengið.