Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir fjölda fólks hafa sótt miðbæinn í Reykjavík það sem af er kvöldi og að engin hætta hafi staðið að almennum borgurum eða lögreglumönnum.
Eftir að skilaboð fóru á dreifingu manna á milli á samfélagsmiðlum í vikunni um að í skipulagningu væri meint hefndarárás vegna hnífstungu á Bankastræti Club síðustu helgi sem mögulega myndi einnig beinast að saklausum borgurum tilkynnti lögreglan að hún yrði með stóraukin viðbúnað í miðbænum um helgina.
„Það var mjög mikið af fólki niðri í bæ um sjöleytið áðan, bæði af fjölskyldufólki og fólki sem var almennt á röltinu,“ segir Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir veðrið geta spilað inn í og segir það vera gott í miðbænum.
„Kvöldið hefur verið rólegt,“ segir Rafn.
Hann segir enga hættu hafa staðið að almennum borgurum eða lögreglu það sem af er kvöldi en segir ómögulegt að segja við hverju er að búast. „Það fer eftir því hverjir ætla út á skemmtanalífið,“ segir Rafn.
Sendiráð þriggja ríkja, Bandaríkjanna, Bretlands og Kanada, höfðu varað ríkisborgara sína við hættuástand í miðbænum um helgina þar sem fólki var meðal annars ráðlagt að forðast margmenni og fara að öllu með gát á næturklúbbum og í miðbænum.