Gísli Ásgeirsson þýðandi birtir í bloggfærslunni Að stökkva á hneykslunarvagninn… mynd af hádegismatseðli fyrir þjónustuíbúðir eldri borgara sem innlegg í heita umræðu um mataræði gamla fólksins sem nýtur þjónustu Reykjavíkurborgar.

Tilefnið er fjaðrafok á Facebook í gær eftir að Óðinn Kári Karlsson, barnabarn íbúa í þjónustukjarnanum í Fururgerði 1, birti þar mynd af kvöldmatseðli vikunnar og furðaði sig á að ekki væri staðbetri matur í boði en súpur og grautar. 

Sjá einnig: Kvöldmatseðill eldri borgara vekur furðu og hneykslan

Kjúklingalæri og lambaframpartur

Fréttablaðið greindi frá heitum umræðum sem fylgdu í kjölfarið og í samtali við blaðið sagði Helga Björk Haraldsdóttir, forstöðumaður í Furugerði, að þar á bæ reyndu þau að sinna matarmálum eftir bestu getu. 

„Svo getur fólk náttúrlega fengið sér morgunmat hérna hjá okkur líka; hafragraut, AB-mjólk og brauð og svo er náttúrlega kaffitími þar sem hægt er að fá kökur og brauð líka. Mér finnst svolítið horft bara á súpurnar og grautana en það eru alltaf ávextir með og kaffi á eftir.“

„Ég er matmaður og sísvangur en þættist vel haldinn ef ég byggi við þennan kost. Ég þekki til á dvalarheimili og veit að fólkið þar er vel haldið. En hafa skal það sem hneykslar meira,“ skrifar Gísli um fæðuframboðið í þjónustuíbúðunum.

Samkvæmt matseðlum vikunnar er boðið upp á hakk og spaghettí, salat og brauð í dag og sveppasúpu ásamt brauði og ávöxtum. Á morgun eru fiskibollur með parísarkartöflum ostasósu og rósakáli í hádeginu og aspassúpa í kvöldmat. 

Á föstudaginn verða steikt kjúklingalæri í hádeginu, steiktur fiskur á laugardaginn og á sunnudag verður boðið upp á fylltan lambaframpart með röstí-kartöflum og soðnu grænmeti.

Bræði og táraflóð

Gísli vitnar í bloggi sínu í Facebook-innleggið Óðins Kára Karlssonar, sem hóf umræðuna í gær og segir síðan: „Þetta er innleggið með myndinni hér fyrir neðan. Farsímaeigandi sér hluta af matseðli hanga á vegg, smellir mynd og setur á fésbókina með tilheyrandi hneykslunartón.  

Margir taka undir eins og sjá má af deilingafjölda og það vekur athygli að þrátt fyrir að í athugasemdum sé þetta bull leiðrétt nokkrum sinnum, fjölgaði hneykslunardeilingum um 100 á tæpum klukkutíma í morgun. 

Fólk les ekki athugasemdir, kynnir sér ekki málið, horfir gagnrýnilaust á steypuna og fleytir henni áfram með tilheyrandi bræði, hneykslun, tárfellandi tjákni og upphrópunum. Ef allt gengur eftir, kemst hann í fjölmiðla og verður frægur fyrir hádegi.“

Hádegismatseðillinn hefur tekið flugið á samfélagsmiðlinum í dag og enn er tekist á um málið á samfélagsmiðlinum eins og umræður við birtingu Gunnars Grímssonar á hádegismatseðlinum bera með sér en þar gefur Óðinn Karl ekkert eftir.

„Ekki bara pósta kvöldmatseðlinum, svona lítur hádegið út,“ skrifar Grímur með myndinni af hádegismatseðlinum og heldur áfram „Fyrir alla sem eru að pósta því vonda, við þurfum að sýna sanngirni og heildarmyndina. Óðinn Kári Karlsson vill líklega sjá þetta.“

Óðinn svarar með spurningu: „Ég veit alveg af hádegismatseðlinum. En af hverju er ekki hægt að hafa annað eins á kvöldin?
Þá blandar Gísli Ásgeirsson sér í umræðuna: „Skoðaðu matseðil heils dags og veltu fyrir þér gildi þess að segja rétt frá.“
„Ég hef gert það og sé vel að hann er undir manneldisviðmiðum,“ svarar Óðinn Karl.

Og enn er Gísli til andsvara: „Morgunmatur, hádegismatur, kaffitímar og millimálasnarl? Hvernig væri að birta rökstuðning fyrir svona fullyrðingu?“ spyr hann og bætir við að hann eigi sjálfur ættingja á hjúkrunarheimili og komi þar oft við. „Ég veit að fólkið er vel haldið og fær nóg að borða. Þú birtir hluta af matseðli dags og fékkst hundruð hneykslaðra til að læka innleggið. Þetta heitir að hagræða sannleikanum.“