Nokkuð undar­legt atvik átti sér stað í dag þegar kviknaði fyrir­vara­laust í bíl Önnu Bjargar Þórarins­dóttur, starfs­manns Galdra­safnsins á Hólma­vík, fyrir utan safnið. Kvöldið áður hafði hún ein­mitt haldið fyrir­lestur um galdra­brennur.

„Ég veit í rauninni ekkert hvað gerðist,“ segir Anna Björg í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún mætti til vinnu í dag um klukkan eitt og þegar hún steig út úr bílnum, sem hún hafði lagt fyrir utan Galdra­safnið fann hún bruna­lykt. Þá sá hún að það var farið að rjúka úr húddinu og heyrði eitt­hvað snark, eins og í eldi.

Þegar slökkvilið kom á svæðið var vélarsalurinn alelda.
Mynd/Aðsend

Bíllinn er ekki mjög gamall, heldur þvert á móti fremur ný­legur. Anna segist ekki hafa hug­mynd um hvað hafi komið fyrir en hefur heyrt af svipuðum at­vikum áður. Hún úti­lokar þó ekki mögu­legt hlut­verk yfir­náttúrunnar í málinu, þetta gerðist jú fyrir utan Galdra­safnið sjálft.

„Ég var með fyrir­lestur í gær­kvöldi um galdra­brennur,“ segir Anna og hlær. „Þannig þetta er kannski eitt­hvað tengt, maður veit það ekki.“

Þegar slökkvi­lið mætti svo á staðinn var vélar­salur bílsins orðinn al­elda. Hann er nú gjör­ó­nýtur. Anna vonast auð­vitað til að tryggingarnar nái utan um skemmdir eftir yfir­náttúru­lega elda, ef ekki komi vonandi í ljós að hér hafi verið að ræða um ein­hverja þekkta bilun í raf­geymi eða batteríi bílsins.

Bíllinn er gjörónýtur eftir eldinn.
Mynd/Aðsend