Nokkuð undarlegt atvik átti sér stað í dag þegar kviknaði fyrirvaralaust í bíl Önnu Bjargar Þórarinsdóttur, starfsmanns Galdrasafnsins á Hólmavík, fyrir utan safnið. Kvöldið áður hafði hún einmitt haldið fyrirlestur um galdrabrennur.
„Ég veit í rauninni ekkert hvað gerðist,“ segir Anna Björg í samtali við Fréttablaðið. Hún mætti til vinnu í dag um klukkan eitt og þegar hún steig út úr bílnum, sem hún hafði lagt fyrir utan Galdrasafnið fann hún brunalykt. Þá sá hún að það var farið að rjúka úr húddinu og heyrði eitthvað snark, eins og í eldi.

Bíllinn er ekki mjög gamall, heldur þvert á móti fremur nýlegur. Anna segist ekki hafa hugmynd um hvað hafi komið fyrir en hefur heyrt af svipuðum atvikum áður. Hún útilokar þó ekki mögulegt hlutverk yfirnáttúrunnar í málinu, þetta gerðist jú fyrir utan Galdrasafnið sjálft.
„Ég var með fyrirlestur í gærkvöldi um galdrabrennur,“ segir Anna og hlær. „Þannig þetta er kannski eitthvað tengt, maður veit það ekki.“
Þegar slökkvilið mætti svo á staðinn var vélarsalur bílsins orðinn alelda. Hann er nú gjörónýtur. Anna vonast auðvitað til að tryggingarnar nái utan um skemmdir eftir yfirnáttúrulega elda, ef ekki komi vonandi í ljós að hér hafi verið að ræða um einhverja þekkta bilun í rafgeymi eða batteríi bílsins.
