Egypsk sex manna fjölskylda sem vísa á úr landi á miðvikudag undirgekkst COVID-19 próf í gær sem undirbúning að brottvísuninni. Þrír lögreglumenn fylgdu fjölskyldunni sem samanstendur af hjónunum Dooa og Ibrahim og fjórum börnum þeirra sem eru á aldrinum 5 til 12 ára. Þau hafa dvalið á landinu í tvö ár og sótt um alþjóðlega vernd vegna ótta við ofsóknir í heimalandinu.

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, hefur ekki séð niðurstöðurnar en á ekki von á öðru en að sýnin hafi verið neikvæð. Fjölskyldan hafi verið einkennalaus.

Magnús segir að áfram haldi óvissa og kvíði fyrir fjölskylduna en jafnframt von um að málið leysist. „Meðan þau eru á landinu, þá er von,“ segir hann.

Þrjár beiðnir eru á borði kærunefndar útlendingamála, tvær um endurupptöku málsins og ein um frestun réttaráhrifa. Í gær fór Magnús fram á að velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis yrðu kallaðar saman í dag í von um að stöðva brottvísunina.

Málið gæti ratað inn á borð allsherjarnefndar sem fundar í dag sem og inn á ríkisstjórnarfund dagsins. Búið er að skipuleggja samstöðufund á Austurvelli klukkan fjögur í dag.