Kviðdómur í Brooklyn í New York komst að niðurstöðu fyrir skömmu í máli bandaríska söngvarans R. Kelly en hann var ákærður fyrir að hafa starfrækt glæpahring sem laðaði ungar stúlkur til kynferðislegra athafna með honum.

Niðurstaða kviðdómsins, sem hóf umræður sín á milli síðastliðinn föstudag, var að sakfella Kelly fyrir ólöglega verslun eða fjárglæfrar (e. racketeering) og kynlífsmansal (e. sex trafficking).

Í heildina var Kelly ákærður í níu ákæruliðum, eina fyrir fjárglæfrar, þar sem undir féllu fjórtán brot sem sneru að misnotkun barna, mannráns, mútum, og kynlífsmansali. Þá var hann ákærður í átta liðum út frá bandarísku mansalslögunum „Mann Act“. Var hann sakfelldur í öllum liðum í dag.

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið verður dómsuppkvaðning í málinu þann 4. maí næstkomandi en hann gæti átt yfir höfði sér áratugalangan fangelsisdóm. Lögmaður Kelly sagði niðurstöðuna vera vonbrigði og kvaðst vera að íhuga áfrýjun.

Réttarhöldin hófust þann 18. ágúst síðastliðinn og báru allt í allt 50 vitni skýrslu fyrir dómi á fimm vikum. Af þeim vitnum voru 45 kölluð til af saksóknurum en þar á meðal voru þó nokkrar konur og tveir karlmenn sem sögðu Kelly hafa brotið á sér.

Flestir þeirra sem sögðu Kelly hafa brotið á sér voru á barnsaldri þegar meint brot áttu sér stað. Fyrrverandi starfsmenn Kelly báru einnig vitni gegn honum en þeir sögðust hafa fengið greitt fyrir að líta fram hjá hegðun hans eða aðstoða hann við að verða sér út um fórnarlömb.

Kelly á einnig yfir höfði sér fleiri ákærur í öðrum ríkjum, til að mynda í Illinois þar sem hann er kærður fyrir framleiðslu og vörslu barnakláms, kynferðisofbeldi, og fyrir að hindra framgang rannsóknar. Þá er hann ákærður í Minnesota fyrir að taka þátt í vændi ólögráða barns. Hann neitar sök í öllum málum.

Fréttin verður uppfærð.