Eftir tíu daga einangrun vegna Covid-19 smits var hinn 14 ára Daníel Indriðason á leið í skólann þegar hann fær skyndilega yfirliðstilfinningu. Hann átti erfitt með andardrátt, varð fjólublár og fannst hann vera missa mátt í fótum.
Daníel fer rakleiðis heim til sín þar sem foreldrar hans, Indriði Björnsson og Rikke Pedersen, höfðu samband við Covid-19 deildina. Þeim var sagt að hafa samband við heilsugæsluna sem þau gerðu. Þar var hann skoðaður vel og að endingu var talið að um kvíðakast væri að ræða.
Daníel var því sendur heim til að hvíla sig. Eftir því sem leið á daginn varð hann móðari og átti erfitt með að koma út úr sér heilli setningu að sögn Indriða. Móðir hans, Rikke, fór þá að fylgjast grannt með honum ásamt því að mæla hitastig hans reglulega. Þá tók hún eftir því að hitastigið rokkaði upp og niður.
Morguninn eftir, á þriðjudegi, hefur hún samband við Barnaspítalann sem vill fá að skoða hann. Indriði segir að eftir myndatöku hafi fullt af blóðtöppum í báðum lungum drengsins komið í ljós.
„Þeir sögðu að að þetta væri mjög alvarlegt ástand.“ Daníel hafi þó ekki þurft að fara á gjörgæslu. „Maður veit náttúrulega ekkert hvernig þetta hefði endað ef maður hefði bara trúað því að þetta væri bara kvíðakast,“ segir Indriði.
Daníel útskrifaðist af Barnaspítala Hringsins í gær og braggast vel. Indriði segir að nú taki við þriggja mánaða lyfja inntaka og eftirfylgni hjá honum.
Daníel er ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma né í áhættuhópi. „Þetta er greinilega eitthvað sem foreldrar þurfa að hafa í huga,“ segir Indriði og nefnir að þetta sé þekkt aukaverkun hjá eldra fólki en ekki ungu.