Eftir tíu daga ein­angrun vegna Co­vid-19 smits var hinn 14 ára Daníel Indriða­son á leið í skólann þegar hann fær skyndi­lega yfir­lið­s­til­finningu. Hann átti erfitt með andar­drátt, varð fjólu­blár og fannst hann vera missa mátt í fótum.

Daníel fer rak­leiðis heim til sín þar sem for­eldrar hans, Ind­riði Björns­son og Rikke Peder­sen, höfðu sam­band við Co­vid-19 deildina. Þeim var sagt að hafa sam­band við heilsu­gæsluna sem þau gerðu. Þar var hann skoðaður vel og að endingu var talið að um kvíða­kast væri að ræða.

Daníel var því sendur heim til að hvíla sig. Eftir því sem leið á daginn varð hann móðari og átti erfitt með að koma út úr sér heilli setningu að sögn Indriða. Móðir hans, Rikke, fór þá að fylgjast grannt með honum á­samt því að mæla hita­stig hans reglu­lega. Þá tók hún eftir því að hita­stigið rokkaði upp og niður.

Morguninn eftir, á þriðju­degi, hefur hún sam­band við Barna­spítalann sem vill fá að skoða hann. Ind­riði segir að eftir mynda­töku hafi fullt af blóð­töppum í báðum lungum drengsins komið í ljós.

„Þeir sögðu að að þetta væri mjög al­var­legt á­stand.“ Daníel hafi þó ekki þurft að fara á gjör­gæslu. „Maður veit náttúru­lega ekkert hvernig þetta hefði endað ef maður hefði bara trúað því að þetta væri bara kvíða­kast,“ segir Ind­riði.

Daníel út­skrifaðist af Barna­spítala Hringsins í gær og braggast vel. Ind­riði segir að nú taki við þriggja mánaða lyfja inn­taka og eftir­fylgni hjá honum.

Daníel er ekki með neina undir­liggjandi sjúk­dóma né í á­hættu­hópi. „Þetta er greini­lega eitt­hvað sem for­eldrar þurfa að hafa í huga,“ segir Ind­riði og nefnir að þetta sé þekkt auka­verkun hjá eldra fólki en ekki ungu.