Ekkert eitt mál er nú um­deildara meðal íbúa á Austur­landi en lax­eldi í sjó­kvíum. Þetta segir doktor Unnur Birna Karls­dóttir, for­stöðu­maður Rann­sókna­seturs Há­skóla Ís­lands á Austur­landi.

Unnur Birna vinnur nú rann­sókn á við­horfum fólks á Austur­landi til sjó­kvía­eldisins. Þótt rann­sókninni sé ekki lokið segir hún vís­bendingar um að stað­setning kvíanna ráði miklu um við­horf í­búanna.

Á Seyðis­firði hefur verið mikil and­staða við sjó­kvía­eldi að sögn Unnar. Þar er búið að stofna sam­tök gegn fyrir­huguðu sjó­kvía­eldi. Unnur segir að það séu ekki síst náttúru­verndar­sjónar­mið sem séu ofar­lega á baugi hjá mót­mælendum. Sumir haldi því fram að eldið henti illa fyrir ferða­þjónustu. Á Stöðvar­firði hafi verið mót­mæli vegna sjón­rænna á­hrifa.

„Fólk horfir kannski út um gluggann sinn beint á þessar kvíar. Það spillir sjón­rænni upp­lifun,“ segir Unnur Birna og bætir við að einnig sé ótti vegna blöndunar við villtan lax.

„Fólk horfir kannski út um gluggann sinn beint á þessar kvíar. Það spillir sjón­rænni upp­lifun“

Stuðningur er hins vegar meðal Aust­firðinga við þá at­vinnu­sköpun sem hefur orðið í greininni. Fjöldi starfa er þó nokkuð ó­ljós og hluti rann­sóknarinnar felst í að kort­leggja þann þátt.

Á Djúpa­vogi hefur fjöldi fólks unnið við að slátra laxi. Eitt af mark­miðum rann­sóknarinnar er að kanna kynja­skiptingu starfa. Spurð hvort um sé að ræða karl­læga at­vinnu­sköpun segist Unnur Birna ekki geta stað­hæft um það á þessu stigi en stjórnar­taumarnir séu í öllu falli karl­lægir.

Varðandi ó­spillta náttúru og sjón­ræn á­hrif segir Unnur um­hugsunar­efni hvort fylla skuli alla firði.

„Þeir hafa verið að færa út kvíarnar í bók­staf­legri merkingu.“

Sjúk­dómurinn blóð­þorri hefur tíma­bundið lamað mest­alla lax­eldis­starf­semi á Austur­landi. Skammt mun þess þó að bíða að greinin taki aftur við sér.

Unnur Birna segir ekkert mál umdeildara nú meðal íbúa á Austurlandi en laxeldi í sjókvíum.
Mynd/Aðsend