„Við erum hæstánægðar með þennan árangur kvenna í kosningunum,“ segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, um niðurstöður Alþingiskosninganna sem fóru fram í gær. Í kosningunum urðu konur í fyrsta skipti í Íslandssögunni meirihluti fulltrúa á Alþingi en af 63 þingmönnum verða konur 33. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem konur eru í meirihluta á þingi í nokkru Evrópuríki og í fyrsta sinn sem það gerist í landi sem ekki hefur innleitt lög um kynjakvóta á þingi.

„Ein ástæðan fyrir því að okkur hefur gengið svo vel að nálgast kynjajafnrétti er það að það ríkir þverpólitísk samstaða um mikilvægi þess að konur og öll kyn taki þátt í stjórnmálum,“ segir Brynhildur. „Þessi árangur sem við náðum í ár byggir á þrotlausu starfi í áratugi við að tryggja stöðu kvenna til að taka þátt í ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins. Við treystum því að þetta eigi eftir að leggja undirstöðurnar að enn betri árangri í jafnréttisbaráttunni, því eins og við vitum er mikið eftir ógert. Það ríkir enn landlægt kjaramisrétti á Íslandi og ofbeldi gegn konum er svívirðilegt eins og kemur fram í tölum frá Áfallasögu kvenna.“

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands.
Mynd/Carolina Salas Muñoz

Brynhildur bendir á að af átta flokkum sem nú sitja á þingi hafi fjórir sett sér reglur um hlutföll kvenna á kosningalistum sínum. Hún vonast til þess að hinir fjórir fari að þeirra fordæmi á þessu kjörtímabili. „Í þessum kosningum höfðu allir flokkarnir kynjahlutföll í huga, og það er algjörlega frábær árangur. En við þurfum bara að líta aftur til ársins 2017 til að sjá að þetta varir ekki endilega endalaust. Í þeim kosningum varð mesta hrun kvenna út af þingi sem ég hef heyrt um, þegar konur fóru frá því að vera 48 fulltrúa á þingi niður í 38 prósent.“

Auk þess að óska þess að stjórnmálaflokkar taki sér upp reglur af þessu tagi vill Brynhildur því líka að reglur um kynjahlutföll á kjörlistum verði innsigluð í íslensk lög. „Við viljum að í kosningalögum lýðveldisins sé skilmerkilegt að ef einhver listi vill bjóða fram í alþingis- eða sveitastjórnarkosningum, þá séu reglur í gildi um kynjahlutföll. Þannig tryggjum við að það komi ekki bakslag í hlutfalli kvenna líkt og gerðist í kosningunum 2017.“

Brynhildur segir það gefa auga leið að aukin aðkoma kvenna að ákvarðanatöku í stjórnmálum leiði til þess að málefni og réttindi kvenna séu frekar virt. Bendir hún á að konur hafi fyrst rofið 33 prósenta glerþakið á Alþingi árið 2009 og að upp frá því hafi lagasetningar um kvenréttindi orðið mun tíðari en áður tíðkaðist.