Kvennskælingar fengu sitt fyrsta ball frá upphafi kórónaveirufaraldursins í gær og fer blaðamaður ekki með fleipur þegar hann segir að gleðin hafi sannarlega verið við völd.

Hjalti Jón Sveinsson skólameistari Kvennaskólans segir tilhlökkunina meðal nemenda hafa verið gríðarleg fyrir ballið og að allt hafi farið eins og í sögu í gær þegar nemendur fengu loks að sleppa fram af sér beislinu í Reiðhöllinni í Víðidal.

„Ég heyrði í nemendunum í morgun og þau voru mjög ánægð með þetta. Þetta var akkúrat það sem þau þurftu, jesús minn, það er búið að vera svo mikill spenningur síðustu daga,“ segir Hjalti Jón.

Þetta er fyrsta ballið sem nemendur á bæði fyrst og öðru ári upplifa. Segist skólameistarinn ekki vita betur en allir nemendur hafi verið til fyrirmyndar.

Nýnemar í Hallargarðinum eftir skólasetningu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Foreldrar aðstoðuðu skólann við biðröðina fyrir utan Reiðhöllina í gær og voru duglegir að sækja börnin sín eftir ballið.

„Við gerum þetta allt í sameiningu: Skólinn, foreldrar og nemendurnir,“ segir Hjalti Jón en sjálfur lýsir hann sinni tilfinningu eins og miklu fargi hafi verið af honum létt.

„Nemendurnir voru alveg til fyrirmyndar. Þau eru alltaf svo yndisleg, jákvæð og æðrulaus.“