Kvennskælingar tóku hljóðnemann heim þetta árið eftir æsispennandi úrslitaviðureign gegn Menntaskólanum í Reykjavík í gærkvöldi. Úrslitin réðust með síðustu spurningunni.

MR-ingar voru einu stigi yfir með sex stig eftir í pottinum, eftir að hafa svarað næstsíðustu vísbendingaspurningunni á síðustu vísbendingu. Kvennó lét þó ekki hugfallast og fékk tvö stig fyrir síðustu vísbendingaspurninguna.

MR hafði því lokatækifæri til að vinna keppnina í þríþrautinni, en í henni var spurt um heiti á þremur íslenskum jöklum og hver þeirra hopi hraðast af völdum loftslagsbreytinga. Svarið var ekki rétt og því úrslitin ljós.

Í liði Kvennaskólans voru Fjóla Ósk Guðmannsdóttir, Hlynur Ólason og Berglind Bjarnadóttir og lið MR var skipað Sigrúnu Völu Árnadóttur, Hlyni Blæ Sigurðssyni og Ármanni Leifssyni. Spyrill keppninnar var Kristjana Arnarsdóttir, spurningahöfundar og dómarar voru Ingileif Friðriksdóttir, Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helgi Bragason.