Leit stendur nú yfir að konum til að taka þátt í nýsköpunarhraðlinum og geta bæði einstaklingar og lið tekið þátt. Hefst hraðallinn þann 3. febrúar og stendur fram í maí, er þátttakendum að kostnaðarlausu og verða verðlaun veitt við lok hans.

Um er að ræða annað sinn sem hraðallinn er haldinn en markmið hans er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Jafnframt er tilgangur hraðalsins að bjóða upp á fræðslu og efla tengslanet kvenna.

Færri komust að en vildu


Í fyrra konust færri að en vildu en 25 konur voru þátttakendur og hafa þær haslað sér völl bæði hér heima og erlendis með frekari þróun og fjármögnun viðskiptahugmynda sinna. Verkefnið sem skammstafað er AWE er í boði í yfir fimmtíu löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda og er Ísland fyrst norrænna ríkja til að taka þátt.

Fulltrúar sigurvegara síðasta árs, frá fyrsta til þriðja sætis Svala Jónsdóttir, Aníta Þórunn Þráinsdóttir, Margrét Pollý Hansen og Jamie Lee sem hlaut verðlaun fyrir bestu lyftukynninguna. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Konur fá jafnmargar hugmyndir


Að skipulagningu hraðalsins koma einnig Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) og Samtök kvenna af erlendum uppruna (W.O.M.E.N). Fida Abu Libdeh forstjóri Geo Silica og varaformaður FKA á Suðurnesjum, er ein þriggja kvenna sem munu vera mentorar í hraðlinum.

Fida Abu Libdeh forstjóri og annar stofnenda Geo Silica verður einn mentora í hraðalnum. Fréttablaðið/Valli

Hvaða máli skiptir svona hraðall?

Stuðningur og fræðsla sem konur geta fengið til að þróa viðskiptahugmyndir sínar skiptir svo miklu máli. Þegar er farið af stað með sprotafyrirtæki eða viðskiptahugmynd þá er einnig mikilvægt að efla tengslanetið og læra af þeim sérfræðingum sem hafa farið í gegnum þetta allt saman.


Hvers vegna skiptir máli að beina athygli sérstaklega að konum?


Rannsóknir sýna að jafn margar konur og karla fá viðskiptahugmyndir. Staðreyndin er sú að það er erfirðara fyrir konur að finna fjármagn og stuðning heldur en fyrir karla. Þess vegna skipta hraðallar líkt og þessi miklu máli til þess að laga það misrétti sem ríkir í okkar samfélagi. Rannsóknir sýna einnig að kvennleidd hugmynd er líklegri til að ná árangri," fullyrðir Fida og bætir við, "

Það má því segja að það er smart að fjárfesta í kvennleiddu verkefni þar sem þær eru líklegri til að ná árangri. Ég hvet allar konur og þá sérstaklega konur á landsbyggðinni og af erlendum uppruna til að sækja um."

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni awe.hi.is en þar má skila inn umsóknun til mánudags.