Þann 24. október næstkomandi, á kvennafrídeginum, eru konur hvattar til að ganga út úr vinnunni klukkan 14:55. Í ár verður gengið út undir kjörorðunum: „ Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!”. 

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74 prósent af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru samkvæmt því með 26 prósent lægri atvinnutekjur að meðaltali. Ef miðað er við það hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir fimm klukkustundir og 55 mínútur ef miðað er við fullan vinnudag sem hefst klukkan níu og lýkur klukkan 17. 

Segir í tilkynningu frá aðstandendum kvennafrídagsins í ár að samkvæmt því sé daglegum vinnuskyldum kvenna því lokið klukkan 14:55 og að með sama áframhaldi muni konur ekki fá sömu laun og karlar fyrr en árið 2047, sem er eftir 29 ár. 

Árið 2016, þegar síðast var gengið út, lögðu konur niður störf klukkan 14:38 og fyrir það, árið 2010, lögðu nær niður störf klukkan 14:25.

Að fundinum standa samtök kvenna og samtök launafólks. Segir í tilkynningu frá þeim að um sé að ræða sjötta skipti sem konur safnist saman og krefjist launajafnréttis og samfélags án ofbeldis. Í tilkynningu segir enn fremur að þó Ísland sé „paradís fyrir konur í alþjóðlegu samhengi“ þá sé enn víða pottur brotinn og er sérstaklega vísað til #Metoo byltingar síðasta vetrar.  

„Síðastliðið ár hafa frásagnir kvenna af áreitni, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum undirstrikað að brýnt sé að tryggja öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði.“

Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn 24. október árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um land allt niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Fundurinn vakti mikla athygli víða um heim. Síðan þá hefur verið gengið út árin 1985, 2005, 2010 og 2016. 

Meiri upplýsingar um Kvennafrídaginn 2018 er að finna á heimasíðu þeirra www.kvennafri.is