Frá þeim sögulega degi hafa konur sex sinnum lagt niður vinnu sína á kvennafrídeginum til að mót­mæla lakari skil­yrðum kvenna á vinnu­markaði, hvort sem er kjaramis­rétti eða kyn­ferðis­brot, eins og árið 2018 þegar á­hersla var lögð á #MeT­oo mál á vinnu­markaði.

Þetta árið verða engin mót­mæli en dagurinn er heiðraður af Kven­réttinda­fé­laginu. Boðið verður upp á sögu­göngu um mið­borg Reykja­víkur þar sem höfundar bókarinnar Konur sem kjósa: Aldar­saga, munu leiða fólk um feminískar sögu­slóðir mið­borgarinnar.

Sögulegur kvennafrídagur árið 1975.
Mynd úr Ljósmyndasafni Ólafs K. Magnússonar

Rit­höfundarnir, Erla Hulda Hall­dórs­dóttir, Kristín Svava Tómas­dóttir og Ragn­heiður Kristjáns­dóttir, leggja af stað með gönguna frá Hall­veigar­stöðum á Tún­götu 14 klukkan tvö í dag.

Tatjana Latinović, for­maður Kven­réttinda­fé­lags Ís­lands, segir að fé­lagið muni á­vallt ein­beita sér að því að vekja at­hygli á stöðu kvenna í stjórn­málum. „Við teljum það undir­stöðu kynja­jafn­réttis að konur taki jafnan þátt í að stjórna landinu okkar,“ segir hún.

Leið­rétta verð­mæta­mat kvenna­starfa

Tatjana segir þó helsta á­herslu­mál ársins vera að leið­rétta verð­mæta­mat kvenna­starfa. Í haust skilaði for­sætis­ráð­herra skýrslu sem að sögn Tatjönu af­hjúpaði gríðar­legt van­mat á störfum sem konur sinna helst, störf eins og um­önnunar­störf og fræðslu­störf.

„Það er ljóst að við getum ekki upp­rætt launa­mun kynjanna fyrr en við erum búin að leið­rétta laun kvenna­stétta og meta störf þeirra að verð­leikum,“ segir Tatjana.

Kvennafrídagur 2018.

Í skýrslunni segir að skýringar á launa­mun kynjanna feli gjarnan í sér þá af­stöðu að virði hefð­bundinna kvenna­starfa sé minna en hefð­bundinna karlastarfa og fram­lag kvenna til sam­fé­lagsins þannig van­metið.

„Líf­seig að­greining kynjanna er enn fyrir hendi hvað viðkemur annars vegar vel launuðum karla­störfum og hins vegar illa launuðum kvenna­störfum, einkum um­önnunar­störfum sem konur unnu áður launa­laust heima hjá sér en sinna nú í lág­launa­störfum,“ segir í skýrslunni.

Þá er lagt til í skýrslunni að að­gerðar­hópur verði stofnaður sem hefur það að mark­miði að reyna að leið­rétta þetta van­mat með ýmsum hætti.

Bak­slag í far­aldri

Sam­kvæmt Tatjönu hefur orðið bak­slag í kvenna­bar­áttunni á al­þjóða­vett­vandi vegna heims­far­aldursins. „Út um allan heim hafa konur hrökklast út af vinnu­markaðnum þar sem að skólar og dag­vistun í mörgum löndum var lokað.“

Hún nefnir að Al­þjóða­efna­hags­ráðið hafi birt nýjustu skýrslu sína um kynja­jafn­rétti í haust og þar hafi niður­staðan sýnt að far­aldurinn hafi haft þau á­hrif að seinka jafn­rétti um heila kyn­slóð. Í fyrra hafði ráðið á­ætlað að kynin myndu ná jafn­rétti á al­þjóða­vísu eftir 99,5 ár en nú er á­ætlað að það muni taka 135,6 ár.

Skiltagerð fyrir kvennafrídag.
Fréttablaðið/Pjetur

Þá segir Tatjana að að­stæður á Ís­landi séu betri en á flestum öðrum stöðum. „Undir­stöðurnar í sam­fé­laginu sem tryggja jafn­rétti eru mun tryggari,“ segir hún.

„En far­aldurinn hefur svo sannar­lega af­hjúpað hve mikil­væg og ó­missandi um­önnunar­störf eru, þessi störf sem aðal­lega eru unnin af konum. Við verðum að meta þessi störf að verð­leikum og hækka laun þessara stétta,“ segir Tatjana.

Á­vallt þörf fyrir bar­áttu­sam­tök fyrir jafn­rétti

„Við erum alltaf að fara nær jafn­réttinu,“ segir Tatjana. „En bar­áttunni verður þó aldrei lokið því að skilningur okkar á jafn­réttis­hug­takinu dýpkar alltaf með hverju árinu.“

„Sam­setning sam­fé­lags breytist líka og það verður að hafa í huga að allir þjóð­fé­lags­þegnar eiga að geta njótið góðs af jafn­réttis­bar­áttu. Það verður á­vallt þörf fyrir bar­áttu­sam­tök fyrir jafn­rétti, fyrir fé­lag eins og Kven­réttinda­fé­lagið, til að koma í veg fyrir bak­slag.“

Kvenréttindafélag Íslands birti Facebook-færslu í tilefni dagsins þar sem nýjustu tölur um launamun eru nefndar.

"Konur vinna ókeypis eftir kl. 15:10 á Íslandi!

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna voru meðalatvinnutekjur kvenna 77,2% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 22,8% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 6 klukkustundir og 10 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17.

Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 15:10.

Ný skýrsla forsætisráðherra afhjúpar kerfisbundið vanmat á störfum sem konur vinna.

Nú er tími til að leiðrétta skakkt verðmætamat!

#kvennafrí #jöfnkjör"

Mynd/Kvenréttindafélag Íslands