Kvennaathvarfið á Akureyri mun halda áfram starfsemi eftir að tilraunatímabili þess lýkur um áramót. Athvarfið var stofnaði í ágúst í fyrra og var fyrst um að ræða tilraunaverkefni til hálfs árs. Verkefnið var þá framlengt til næstkomandi áramóta.

„Nú hefur verið tekin ákvörðun um að athvarfið verði opið áfram og þá ekki sem tilraunaverkefni. Þetta eru miklar gleðifréttir,“ segir Signý Valdimarsdóttir, verkefnastýra Kvennaathvarfsins á Akureyri og félagsráðgjafi.

Í Kvennaathvarfið geta konur og börn sem ekki geta búið heima hjá sér vegna ofbeldis leitað og dvalið sér að kostnaðarlausu. Þar geta þær fengið ráðgjöf og þjónustu bæði á meðan á dvölinni stendur og að henni lokinni.

„Konur sem búa við ofbeldi en dvelja ekki hjá okkur geta líka leitað hingað og fengið ráðgjöf, það er ekki skylda að dvelja hér,“ segir Signý.

Það sem af er þessu ári hafa sextán einstaklingar dvalið í Kvenna­athvarfinu á Akureyri í samtals 600 daga. Signý segir að aldrei hafi reynt á það að athvarfið fyllist. „Við tökum bara á móti þeim sem koma og hagræðum eftir því,“ segir hún.

Signý segir fjölda þeirra sem leitað hafi í athvarfið í ár svipaðan og árið á undan. „Þetta sýnir bara þörfina fyrir svona úrræði á Norðurlandi,“ segir hún.

„Við vinnum samkvæmt þeirri hugmyndafræði að konan sé sérfræðingur í sínum málum og aðstoðin er tímabundin. Dvalartíminn er mjög misjafn og fer eftir því hvað konurnar sem leita til okkar þurfa,“ segir Signý.

„Við hjálpum þeim að komast í samband við þá aðila sem þær þurfa á að halda, sama hvort það er lögregla, félagsþjónustan eða barnavernd og hjálpum þeim með aðra þætti eins og að finna húsnæði,“ segir Signý og bætir við að samfélagið á Norðurlandi hafi tekið afar vel í verkefnið. Einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki hafi staði þétt við bak athvarfsins og allir séu fúsir til samstarfs.

„Þegar við opnuðum athvarfið vissum við ekki alveg út í hvað við værum að fara en við höfum nýtt tilraunatímabilið vel í að móta starfsemina sem nú getur haldið áfram. Þetta er búið að standast allar okkar væntingar og hefur gengið vel,“ segir Signý.