Þögn ÍSÍ hefur vakið athygli í nýjustu #metoo bylgju, enda hafa sögur tengdar íþróttum verið allt annað en fallegar. Sambandið sendi loks frá sér bréf til allra sem tengjast íþróttastarfi á Íslandi og fordæmir þar allt ofbeldi í starfsemi íþróttahreyfingarinnar.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) ítrekar með bréfi til allra sem tengjast íþróttastarfi á Íslandi að sambandið fordæmi allt ofbeldi í starfsemi íþróttahreyfingarinnar, enda sé slík hegðun óásættanleg og ólíðandi með öllu.Á undanförnum vikum hefur umræða um kynbundið ofbeldi blossað upp á ný í tengslum við #metoo.

Margar frásagnir hafa birst þar sem íþróttamenn koma við sögu og kynferðisbrot í íþróttastarfi og einnig hefur verið bent á að kvenfyrirlitningu megi finna alltof víða í karlaklefum landsins.

Margir hafa undrast þögn ÍSÍ í þessari bylgju enda hægt að túlka þögn sem afstöðu. Ástæðan var ársþing sambandsins svo það náðist ekki að koma stjórninni saman fyrr.

„Mér finnst mjög mikilvægt að við sýnum að okkur er ekki sama og við ætlumst til að félögin taki til í þessum málum hjá sér,“ segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, sem situr í framkvæmdastjórn ÍSÍ.

Um miðjan maí sýndi knattspyrnukappinn Garðar Gunnlaugsson stuðning sinn í verki í viðtali í útvarpsþættinum Lestinni á RÚV og ræddi um hversu karllæg umræðan í knattspyrnuklefum getur verið.

„Þar hallar oft á konur og minnihlutahópa. Þetta eru oft umræður sem stjórnað er af tveimur til þremur í klefanum og hinir humma og fylgja með og eru meðvirkir. Ég er ekkert saklaus, búinn að vera í þessum heimi í 20-30 ár,“ sagði Garðar meðal annars. Hann skoraði í kjölfarið á íþróttamenn og sérstaklega fótboltamenn að stíga fram og sýna stuðning. Enginn hlýddi kallinu.

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs ÍSÍ tekur á móti tilkynningum um atvik sem upp koma og veitir þolendum ráðgjöf, stuðning og fræðslu. Á heimasíðunni samskiptaradgjafi.is er hægt að tilkynna um atvik sem verða í íþróttum, fá ráðgjöf og finna fræðsluefni tengt málaflokknum.

„Einnig leggjum við ríka áherslu á að við öll sem að íþróttahreyfingunni stöndum tökum skýra afstöðu gegn hvers kyns kvenfyrirlitningu, áreitni og ofbeldi og tökum öllum málum sem upp koma þess efnis alvarlega. Þjálfarar og stjórnarfólk er hvatt sérstaklega til að vinna markvisst að því að byggja upp heilbrigða klefamenningu sem laus er við kvenfyrirlitningu og ofbeldi,“ segir í bréfi ÍSÍ.

Kolbrún bendir á að það sé gríðarlega mikilvægt að koma skýrum skilaboðum út varðandi afstöðu til kynferðisofbeldis, kynbundins ofbeldis og kvenfyrirlitningu.

„Okkur þykir vont að finna og heyra nú í kjölfar annarrar bylgju #metoo að innan íþróttahreyfingarinnar hafi ekki alls staðar verið tekið á þessum málum,“ segir Kolbrún - enda hafi það verið markmið markmið íþróttahreyfingarinnar að tryggja öryggi, jafnrétti og jafnræði þeirra sem iðka og starfa innan íþróttahreyfingarinnar.