Hönnunar- og fataversluninni Jónu Maríu í Bæjarlind verður lokað á næstunni, fyrirtækið framleiðir eigin vörur hér á landi. Alls koma tólf manns til með að missa vinnuna. Jóna María Norðdahl, klæðskeri og eigandi fyrirtækisins, segir marga þætti spila inn í.

„Það eru breyttir verslunarhættir ásamt breytingum í markaðssetningu. Svo eru það launin, þau eru alltaf að hækka, líka leigan,“ segir Jóna María. „Við framleiðum allar okkar vörur á Íslandi og hefðum ekki viljað breyta því þannig að þegar við horfðum til framtíðar mátum við stöðuna þannig að við gætum ekki hækkað vöruverðið í takt við hækkun kostnaðar og því var bara eitt í stöðunni, að rifa seglin núna á meðan við enn þá ráðum ferðinni.“

Verslunin var opnuð í Kópavogi fyrir fimm árum og hefur einbeitt sér að kvenfatnaði en býður einnig upp á skart. „Þetta var bara draumur sem rættist. Við gátum haldið þetta út í fimm ár,“ segir Jóna María. Hún segir að hún hafi hannað, framleitt og selt yfir 11.000 flíkur á ári þannig að víða í fataskápum íslenskra kvenna leynast flíkur frá henni.

Jóna María segir að eftir hrun hafi mikill áhugi verið á íslenskri hönnun og innlendri framleiðslu. „Það er að draga úr því núna. Hlutirnir eru að breytast, við höfum séð íslensku fatamerkin hverfa eitt af öðru sem er mjög sorglegt en allt er breytingum háð. Fólk er að ferðast miklu meira til útlanda nú en áður og kaupir mikið þar. Fyrir utan allt það sem hægt er að kaupa á netinu.“

Einnig er aukin samkeppni frá erlendum fatakeðjum sem hafa opnað verslanir hér á landi á síðustu árum. „Það er virkilega sárt að loka, ég viðurkenni það. Eitt erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. En maður verður að trúa að allar breytingar leiði að einhverju góðu. Ég geng frá borði alveg gríðarlega þakklát öllum þeim yndislegu konum sem hafa keypt og gengið í fötunum frá mér í gegnum árin og líka öllu því frábæra starfsfólki sem staðið hefur vaktina með mér.“

Jóna María fór fyrst út í rekstur árið 2005 með framleiðslu á fylgihlutum og handgerðu skarti fyrir erlenda ferðamenn. Sú framleiðsla kemur til með að halda áfram. Það var svo fyrir tilviljun að á árunum eftir hrun fór Jóna María út í fataframleiðslu sem leiddi til þess að hún opnaði verslunina. „Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt en líka virkilega erfitt og gríðarlega mikil vinna. Ég er búin að læra mikið á þessum tíma,“ segir Jóna María.

Versluninni verður lokað þegar útsölunni lýkur, líklega eftir rúmar tvær vikur. Fyrir utan skartgripina segir hún framtíðina í óvissu. „Kannski fer ég bara að gera eitthvað allt annað.“