Um miðnætti var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um eld upp úr strompi í fyrrum veitingastað í miðborginni. Tveir einstaklingar voru handteknir á vettvangi og slökkvilið sá um að slökkva eldinn. Einstaklingarnir voru vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins. Ekki er vitað hve mikið tjónið er. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Samkvæmt fréttum Vísis og RÚV hýsti húsið áður veitingastaðinn Argentínu. Haft er eftir slökkviliðinu að eldtungur hafi risið upp úr skorsteinunum en að vel hafi gengið að slökkva eldinn.

Brotist var inn í fjögur fyrirtæki í nótt, þrjú í Kópavogi og eitt í miðborginni. Engar nánari upplýsingar eru skráðar um innbrotin í tilkynningu lögreglu.

Stuttu fyrir sex í gær var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Breiðholti. Tveir einstaklingar undir aldri voru grunaðir og haft var samband við foreldra þeirra, sem komu og sóttu þá.

Rétt eftir níu var svo tilkynnt um þjófnað í verslunarmiðstöð í Háaleitishverfi. Hinn grunaði var látinn laus eftir skýrslutöku.

Rétt eftir fjögur var tilkynnt um innbrot í bifreið í Grafarvogi, en engar nánari upplýsingar liggja fyrir.

Stuttu fyrir hálfátta var tilkynnt um eignaspjöll á geymslum í fjölbýlishúsi í miðborginni.

Fljótlega eftir tvö í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna einstaklings sem lét illa í verslun í Bústaðahverfi.