Bál var kveikt nærri Hvíta húsinu í nótt þegar mótmæli héldu áfram vegna dauða George Floyd sem kafnaði í höndum lögreglu fyrir viku.

Þá var maður skotinn til bana af lögreglu í Louisville í Kentucky-ríki rétt eftir miðnætti að staðartíma. Að sögn lögreglu hafði hann áður skotið í átt að lögregluþjónum.

Útgöngubönn voru sett á í nærri 40 borgum í Bandaríkjunum en fjölmargir virtu þau að vettugi.

Meirihluti mótmæla fóru fram með friðsömum hætti en þó sló í brýnu milli óeirðalögreglu og mótmælenda í New York, Chicago, Philadelphia og Los Angeles, þar sem táragasi var beitt.

Dæmi eru um að kveikt hafi verið í lögreglubílum og fólk farið ránshendi um verslanir.

Notuðu blossasprengjur

Klukkutíma áður en útgöngubann tók gildi í höfuðborginni Washington D.C. beitti lögregla táragasi og blossasprengjum (e. stun grenade) á yfir eitt þúsund mótmælendur í Lafayette-garðinum nærri Hvíta húsinu.

Sáust einhverjir mótmælendur þá stafla upp umferðarskiltum og trjágreinum ásamt öðrum lausum munum og kveikja bál.

Einnig sást maður fjarlægja bandarískan fána sem stóð við nærliggjandi byggingu og henda honum á bálið.

Þegar útgöngubannið tók gildi klukkan ellefu að staðartíma girti lögregla garðinn af eftir að hafa ýtt um þrjú hundruð mótmælendum fjær Hvíta húsinu með kylfum og óeirðaskjöldum.

Skotið í átt að blaðamönnum

Mikið var um mótmæli í Bandaríkjunum í nótt og hefur nú sum staðar borið á mótmælum sex daga í röð.

Þjóðvarðliðið hefur nú verið kallað út víða um land en blaðamenn hafa greint frá því að ofbeldi hafi færst í aukanna eftir að það kom til sögunnar.

Dæmi eru um að lögregla og liðsmenn þjóðvarðliðsins hafi skotið gúmmíkúlum og táragasi í átt að blaðamönnum á vettvangi.

Derek Chauvin, lögreglumaðurinn sem nást krjúpa á hálsi George Floyd, hefur verið sagt upp störfum og var á föstudag ákærður fyrir morðið á Floyd.