Sunnudagskvöldið 28. nóvember næstkomandi ætlar Anna Linda Bjarnadóttir að kveikja á kertum við Arnarnesbrúna í Garðabæ, en þann dag verður liðið ár síðan hún lenti í skelfilegu umferðarslysi á brúnni. Ætlar Anna Linda að kveikja á einu kerti fyrir hvern tjónþola eftir árekstur á brúnni.
Anna Linda vakti athygli á þessu í íbúahópi Garðbæinga á Facebook og veitti hún Fréttablaðinu góðfúslegt leyfi til að vekja athygli á málinu.
Kveikir á tveimur kertum fyrir sig
Þann 28. nóvember 2020 var Anna Linda á brúnni þegar ölvaður ökumaður ók yfir á rauðu ljósi með þeim afleiðingum að harður árekstur varð.
„Í heilt ár er ég búin að vinna hörðum höndum að því að ná bata og enn er nokkuð í land. Þetta var í annað sinn sem keyrt er á mig á þessari brú,“ segir Anna Linda sem ætlar að kveikja á tveimur kertum fyrir sjálfa sig vegna þessara tveggja slysa.
Aðspurð segist hún ekki vita hversu mörg kertin verða en hún bíður eftir svörum frá Vegagerðinni um fjölda slysa á Arnarnesbrú.
Löngu tímabærar endurbætur
Anna bendir á að akstur undir áhrifum sé orðið stórt vandamál í umferðinni sem kemur öllum við. Fólk eigi að geta farið út í umferðina án þess að vera í lífshættu vegna ökumanna undir áhrifum. Vill Anna Linda vekja athygli á því með gjörningnum sem og aðstæðum á brúnni sem geta verið varasamar.
„Við áreksturinn 28.11.2020 var mesta mildi að enginn hafi látið lífið eða hlotið alvarleg örkuml á borð við lömun. Þess vil ég líka minnast. Vegna fjöldatakmarkana geta aðeins 50 manns komið saman,“ segir Anna Linda í færslu sinni sem hún endar á þessum orðum:
„Umferðaröryggi er hagsmunamál okkar allra og ég lít svo á að þessi aðrein þar sem áreksturinn átti sér stað, sé dauðagildra þegar umferðarljós eru ekki virt.“
Íbúar í Garðabæ virðast margir taka undir með Önnu um að gatnamótin séu hættuleg.
„Þessi gatnamót eru þekkt vandamál og þarf ekki ölvun til. Endurbætur eru löngu tímabærar. Það á ekki að þurfa alvarleg slys til, þó sú virðist því miður oft raunin,“ segir í einni athugasemd við færslu Önnu.