Mikið hefur verið að gera á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins og töluvert er um símtöl frá foreldrum barna sem veikst hafa af kvefpest.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir pestina þó ekki óeðlilega í venjulegu árferði, sér í lagi nú þegar skólarnir eru byrjaðir. Hann segir hina árlegu inflúensu enn ekki farna að ganga í samfélaginu þótt hefðbundnar kvefpestir leiki marga grátt um þessar mundir.

Óskar telur að það sé álíka mikilvægt og áður að láta bólusetja sig gegn inflúensu. Von er á óvenju mörgum skömmtum af inflúensubóluefni til landsins og segir hann að það sé meðal annars vegna aukins áhuga almennings á að mæta í bólusetningu. Hingað til hafi bóluefnið nánast alltaf klárast og fólk þekki efnið vel. „

Þetta er bóluefni sem fólk hefur þekkt árum saman og tiltölulega fáir hræddir við það. Það leggst almennt ekki illa í fólk svo flestir þola það mjög vel.“