„Þetta er svona mál sem ég mynda reka ókeypis, bara upp á von og óvon um að fá dæmdan málskostnað þegar þetta fyrirtæki yrði sakfellt,“ segir Ómar Valdimarsson lögmaður um mál ferðamannanna sem lentu í hrakningum í fyrrakvöld í vélsleðaferð á Langjökul með Mountaineers of Iceland.

Björgunarsveitir þurftu að selflytja vélsleðahópinn af Langjökli niður að Gullfossi og síðan til Reykjavíkur í gær. Margir voru mjög kaldir og höfðu óttast um líf sitt og sinna í þessari svaðilför.

„Það er ótrúlegt að þessu fyrirtæki skuli detta það í hug að þvælast með allan þennan hóp af fólki upp á jökul þegar það er búið að spá meiriháttar vestanhvelli,“ segir Ómar. Það hafi alls ekki verið eins og veður hefðu skipast skjótt í lofti heldur hafi hver spáin á fætur annarri bent í sömu átt.

„Í einhverri græðgi þá drattast þeir með fullt af fólki þarna upp og geta þakkað fyrir að hafa ekki drepið það. Ég held að það sé klár miskabótaskylda hjá þessu fyrirtæki,“ segir Ómar og bendir á að ekki séu nema þrjú ár síðan sama fyrirtæki var dæmt til að greiða hjónum miskabætur eftir sambærilega ævintýraferð.

„Ástæðan fyrir því að þeir fara upp á jökul hlýtur að vera sú eina að þeir vilja ekki aflýsa ferðinni og tapa þeim peningum sem er þarna um að ræða,“ segir Ómar sem kveðst telja að yfirvöld þurfi tæki til að geta stemmt stigu við slíku athæfi.

„Það ætti að vera sektarheimild hjá yfirvöldum sem gerir það að verkum að þegar það er augljóslega verið að fara með fólk upp á jökul þegar spáin er slæm sé hægt að hirða af þeim allan ágóða ferðarinnar, til þess að núlla út gróðavonina,“ segir Ómar.

For­ráða­menn fyrirtækisins vildu ekki tjá sig við Fréttablaðið fyrripartinn í gær. Var blaðamanni sagt að „grjót­halda kjafti“ þegar óskað var eftir upplýsingum. Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri fyrirtækisins, sagði svo í kvöldfréttum RÚV að allir hjá fyrirtækinu væru miður sín vegna málsins.

Nokkrir ferðamannanna hafa leitað til Lilju Margrétar Olsen, lögmanns hjá Kötlu lögmönnum, vegna málsins. Sagði hún í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að þeir sem hefðu leitað til hennar myndu gera kröfu á Mountaineers of Iceland.