Aðalmeðferð hófst í dag í kynferðisbrotamáli gegn Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni nuddara en ekki hefur náðst í vitni sem verjandi hans kallaði til.

Sigrún Jóhannsdóttir, sem var réttargæslumaður brotaþola nuddarans, þegar fyrsta sakamálið gegn Jóhannesi var til rannsóknar hjá lögreglu, baðst undan því við saksóknara að gefa skýrslu í málinu, en verjandi Jóhannesar kvaddi hana til dóms til að gefa skýrslu í málinu.

Saksóknarinn í málinu lét þess getið við dómara í dag að Sigrún kæmist hvorki á staðinn til að gefa skýrslu né hefði hún tök á að gefa símaskýrslu „vegna annarra verkefna“.

Verjandi Jóhannesar brást ekki vel við þessum tíðindum og óskaði dómari þá eftir símanúmeri Sigrúnar til að hann gæti hringt í hana og ítrekað kvaðningu fyrir dóm.

Verjandinn kallaði Sigrúnu einnig sem vitni í fyrra dómsmáli gegn Jóhannesi. Dómari í því máli afturkallaði þá skipun Sigrúnar sem réttargæslumanns, þar sem hún var orðið vitni í málinu.

Ólíkt því máli sem nú er til meðferðar var lokað þinghald í því máli og því ekki heimilt að fjalla um það sem fram fór við aðalmeðferð málsins. Um boðun Sigrúnar fyrir dóm sagði Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar þó að hann teldi lögfræðilegan tilbúning málsins eiga sér aðdraganda sem „standist tæpast skoðun“ og hann hygðist draga það fram í vitnaleiðslum.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari hjá Héraðssaksóknara, sækir málið.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fleiri konur leituðu til lögmanns eftir umfjöllun

Eins og Fréttablaðið greindi frá strax og fyrstu kærur gegn Jóhannesi voru til meðferðar hjá lögreglu, leituðu nokkrar konur til Sigrúnar vegna meintra kynferðisbrota hans og fjölgaði þeim eftir að fjölmiðlar hófu að fjalla um málið.

Í samtali við Fréttablaðið sagði Steinbergur vísbendingar um að lögmaðurinn hafi sjálfur staðið að baki auglýsingar eftir skjólstæðingum í fyrirhugaða hópmálsókn gegn ákærða, undir dulnefni, á samfélagsmiðlum.

„Aftakan á skjólstæðingi mínum hefur þegar farið fram, enda fjölmiðlar ítrekað upplýstir um árangur af þessari smölun á meintum fórnarlömbum hans,“ sagði Steinbergur þá.

Ætla verður að tilefni þess að Sigrún er kölluð fyrir dóm í því máli sem nú er til meðferðar, sé af sama toga og í fyrra málinu.

Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar Tryggva, telur að Sigrún hafi smalað saman konum og þjálfað þær fyrir skýrslutöku.
Fréttablaðið/Anton Brink

Vitni geta ekki skorast undan því að gefa skýrslu

Sem fyrr segir hefur dómari óskað eftir símanúmeri hjá Sigrúnu til að ítreka skyldu hennar til að gefa skýrslu fyrir dómi en lögum samkvæmt geta vitni ekki skorast undan því að gefa skýrslu fyrir dómi nema í sérstökum undantekningar tilvikum, svo sem vegna vensla við aðila máls.

Heimilt er lögum samkvæmt að fá liðsinni lögreglu til að koma vitnum fyrir dóm, vilji það ekki mæta af sjálfsdáðum.

Ráðgert hafði verið að Sigrún gæfi skýrslu í málinu á morgun en samkvæmt dagskrá dómsins stendur aðalmeðferð málsins í dag og á morgun.