Samkvæmt upplýsingum af vef Neytendastofu og Samgöngustofu eru til ýmsar útfærslur af bótarétti flugfarþega sem lenda í því að flugi er seinkað eða aflýst. Þá er algengt að farþegar séu ekki upplýstir um þessi réttindi eða telji það ekki ómaksins virði að sækja bæturnar.

Við seinkun eða aflýsingu með skömmum fyrirvara verður flugfélagið að að bjóða farþegum máltíðir og hressingu, án endurgjalds, auk hótelgistingar þegar þess er þörf.
Mynd/Getty

SEINKANIR

Réttur til skaðabóta fer eftir því:

- Hversu löngu fyrir tilætlaða brottför farþega er tilkynnt um að flugi sé aflýst.

- Tímamuni á fyrirhugaðri brottför og komu flugsins.

- Lengd flugs sem skiptist í þrjú stig. Upphæðin hækkar eftir því sem flugið lengist.

Hvað þýðir það?

Ef tveggja vikna fyrirvari er á aflýsingu eða breytingu á flugtíma áttu engan bótarétt. Annars eiga farþegar í flestum tilfellum rétt á einhverjum bótum, svo lengi sem flugið er fært um meira en klukkustund og seinkun boðuð með minna en viku fyrirvara.

Ef þú flýgur til dæmis frá Íslandi til Bandaríkjanna, ferðir sem eru með lengstu beinu flugleggjum frá Íslandi, geturðu átt rétt á allt að 600 evru skaðabótum ef töfin er umfram fjórar klukkustundir. Það eru rúmlega 80 þúsund íslenskar krónur.

Flest Evrópuflug fara í bótaflokk stigi neðar, sem tekur til fluga sem eru 1500 km til 3500 km. Sé slíku flugi seinkað um meira en 3 klukkustundir geta farþegar átt rétt á 300 evru skaðabótum sem eru rúmar fjörutíu þúsund krónur.

ÞEGAR FLUGI ER AFLÝST

Hver eru réttindi þín ef fluginu þínu er aflýst?

  • Þú átt rétt ef þú hefur staðfest skráningu í flugið.
  • Ef þú hefur mætt til innritunar á réttum tíma.
  • Ef brottför er frá EES-ríki eða ef þú ferðast með evrópsku flugfélagi til EES-ríkis.

Eftir atvikum eiga eftirfarandi bótaleiðir við.

  • Þú færð miðann endurgreiddan og flug til baka til fyrsta brottfararstaðar. Ef þú velur þetta áttu að fá flugið endurgreitt innan sjö daga fyrir flugið sem ekki var farið og fyrir þá hluta ferðarinnar sem farnir voru, ef þeir þjóna engum tilgangi lengur. Dæmi: Íslendingur á leið til Indlands flýgur til London og ætlar þaðan til Delí. Fluginu frá London til Delí er aflýst. Þá myndi flugið frá Keflavík til London heyra undan hluta ferðarinnar sem ekki þjónar tilgangi lengur.
  • Ef flugfélagið býður þér flug frá öðrum flugvelli en þú varst skráð/ur til, ber flugfélaginu að greiða ferðakostnað milli flugvalla.
  • Þú færð flugleiðinni til lokaáfangastaðarins breytt.
Ef flugfélagið býður þér flug frá öðrum flugvelli en þú varst skráð/ur til, ber flugfélaginu að greiða ferðakostnað milli flugvalla.
Mynd/Getty

Gisting og matur á meðan bið stendur

Flugfélagið verður að auki að bjóða farþegum máltíðir og hressingu, án endurgjalds, auk hótelgistingar þegar þess er þörf. Auk þessa þarf flugfélagið að greiða tvö símtöl og skilaboð.

Fagstjóri í neytendamálum hjá Samgöngustofu segir að verkfall SAS sé ekki dæmi um fyrirvaralaust verkfall.
Mynd/Getty

Hvenær áttu engan rétt?

Ef fluginu er aflýst vegna aðstæðna sem flugfélagið ræður á engan hátt við, sem ekki er hægt að afstýra þó að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar. Dæmi um slíkt eru fyrirvaralaus verkföll, öryggisáhætta, veðurskilyrði eða náttúruhamfarir, eða ótryggt stjórnmálasamband.

Áhrif heimsfaraldurs og sveiflur á flugmarkaði má sjá mjög greinlega í gögnum Samgöngustofu sem snúa að fjölda kvartana flugfarþega.
Mynd/Getty

Er verkfallið hjá SAS dæmi um fyrirvaralaust verkfall samkvæmt þessari skilgreiningu?

Fagstjóri í neytendamálum hjá Samgöngustofu segir að verkfall SAS sé ekki dæmi um fyrirvaralaust verkfall. „Ákvarðanir varðandi boðuð verkföll sem koma til framkvæmda hafa verið á þá leið að að sé ekki um óviðráðanlegar aðstæður að ræða,“ er haft eftir fulltrúa Samgöngustofu.

Eru flugfarþegar almennt upplýstir um réttindi sín?

Samkvæmt Samgöngustofu er það á ábyrgð flugfyrirtækja að upplýsa farþega um réttindi sín komi til seinkunar eða aflýsingar flugs.

Áhrif heimsfaraldurs og sveiflur á flugmarkaði má sjá mjög greinlega í gögnum stofnunarinnar. Árið 2018 bárust Samgöngustofu 1180 kvartanir. Árið 2019 kom til gjaldþrots tveggja stórra flugfélaga og því bárust 632 kvartanir það árið. Árið 2020 gætti áhrifa heimsfaraldurs þegar aðeins 809 kvartanir bárust og árið 2021 var lítið um flug og því kvartanir aðeins 232.

Hér má því ætla að í vissu samhengi sé um hlutfall af rekstri að ræða.

Fulltrúi Samgöngustofu segir að kvartanir hafi hlaðist inn síðustu daga vegna aflýsinga og seinkana á flugi, sem rekja megi til fyrrgreindra vaxtarverkja flugfyrirtækja í farþegaflugi eftir heimsfaraldur.

Flugfyrirtæki bera ábyrgð á að upplýsa farþega um réttindi sín komi til seinkunar eða aflýsingar flugs.
Mynd/Getty

Ef ég lendi í seinkun eða fluginu er aflýst, hvar byrja ég?

Í upphafi á að hafa samband við flugfélagið. Sé um pakkaferð að ræða hefur ferðaskrifstofan milligöngu nema annað komi fram.

Vefsíður flugfélaganna eru með flipa sem vísar farþegum á svæði þar sem hægt er að senda inn kvartanir og sækja rétt. Ef ekki næst í flugrekanda er hægt að snúa sér til Samgöngustofu.