Ríkið útvistar opinberu eftirliti á endurskoðendafyrirtækjum til stórra fyrirtækja í sömu grein sem fá þannig opinbert vald til að leggja stein í götu keppinautar síns á markaði, hægja á rekstri hans og auka kostnað.

Þetta er meginstef í kvörtun lítils endurskoðendafyrirtækis á höfuðborgarsvæðinu til Samkeppnisstofnunar vegna framkvæmdar endurskoðendaráðs á gæðaeftirliti. Verklagið feli í sér „opinberar samkeppnishömlur sem séu í andstöðu við markmið samkeppnislaga.

Endurskoðendaráð er opinber stjórnsýslunefnd sem sett var á fót eftir efnahagshrunið 2008 til að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og fyrirtæki þeirra ræki störf sín í samræmi við lög og siðareglur.

Í kvörtuninni segir að það sé þvert á lög um endurskoðendur að starfandi endurskoðendur skoði kollegana. Engu að síður útvisti endurskoðendaráð verkefninu til starfandi endurskoðenda. „Í því felst að keppinautar eru fengnir til þess að framkvæma gæðaeftirlit hjá hver öðrum fyrir tilstilli endurskoðendaráðs,“ eins og segir í kvörtuninni.

Gæðaeftirlitsmönnum, sem í reynd séu keppinautar þeirra sem sæta eftirliti, sé þannig í sjálfs vald sett að ákveða umfang þess hverju sinni og hvaða gögnum er óskað eftir frá þeim sem eftirliti sætir.

Endanlegur kostnaður ráðist svo af því einu hvernig keppinautarnir kjósa að afmarka skoðun sína. Tímagjaldið er nú 23.590 krónur sem litlar stofur greiða keppinautum sínum.