Persónuvernd hefur borist kvörtun vegna embættis héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjaskjölunum, sem WikiLeaks birti árið 2019. Í skriflegu svari sem Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, sendi fréttastofu RÚV kom fram að ekki yrði upplýst um þá einstaklinga sem hefðu leitað til stofnunarinnar. Hins vegar var staðfest að um þrjár kvartanir sé að ræða og að þær snúist um vinnslu persónuupplýsinga hjá héraðssaksóknara.

Í frétt RÚV um málið kemur fram að kvartanirnar snúist meðal annars um samnýtingu á gögnum þar sem bæði héraðssaksóknari og skattrannsóknarstjóri hafi haft Samherjaskjölin til rannsóknar. Í rannsókn hins fyrrnefnda hafa sex fyrrum og núverandi starfsmenn sjávarútvegsfélagsins Samherja haft réttarstöðu sakbornings.

Í tengslum við mál tengd Samherjaskjölunum hefur áður verið kvartað bæði til eftirlitsnefndar með störfum lögreglu og til nefndar um dómarastörf en var báðum kvörtununum vísað frá.