Íbúar í Fossvogshverfi kvörtuðu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi vegna erlendra útigangsmanna sem eru sagðir á ferli í hverfinu. Íbúar segja þá sitja ölvaða á gönguleiðum og að þeim fylgi sóðaskapur. Þeir eru einnig taldir hafa stolið einangrun o.fl. frá íbúum í hverfinu og eru sagðir halda til í skógi í nágrenninu. Íbúar segjast upplifa óöryggi og þora varla að hafa börn sín ein utandyra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Rétt fyrir hálfsex í gær var tilkynnt um líkamsárás í Kópavogi, en maður hafði verið skorinn. Hann kom í verslun og bað um aðstoð. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en vildi enga aðstoð frá lögreglu.

Skömmu fyrir hálfátta í gærkvöldi var tilkynnt um slys við Esjuna. Kona á almennri gönguleið fékk á sig grjóthrun og var með mar, sár og skrámur. Björgunarsveitarfólk hjálpaði henni af fjallinu.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum í gærkvöldi og nótt. Einn ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum og vörslu og sölu fíkniefna. Farþegi hans er grunaður um vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum. Bifreiðin var ótryggð og skráningarnúmerin því tekin. Annar ökumaður er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna og sá þriðji er grunaður um ölvun við akstur og var ekki ökuskírteini sitt meðferðis, en hann var stöðvaður eftir að hafa ekki virt biðskyldu.

Rétt eftir fimm var tilkynnt um þjófnað úr íþróttahúsi, en dýrum úlpum, síma, greiðslukorti og fleira var stolið. Mögulega er vitað hverjir voru að verki og málið er í rannsókn.

Rétt eftir sjö var tilkynnt um umferðaróhapp á Bústaðavegi, þar sem tveir bílar lentu saman á gatnamótum. Talið er að önnur bifreiðin hafi ekið gegn rauðu ljósi. Engin slys urðu á fólki en annar ökumaðurinn var fluttur til aðhlynningar vegna brjóstverks.