Foreldrar barns sem var lokað eitt inni í skólastofu í skóla á höfuðborgarsvæðinu hafa kvartað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna málsmeðferðar barnsins, ámælisverðrar framkomu starfsmanna skóla í garð þess, auk aðgerðaleysis skólaskrifstofu í málefni barnsins og framkomu starfsmanna sveitarfélagsins í garð foreldra.

Auk þess að loka barnið eitt inni hefur það verið sett, ásamt starfsmanni, í svokallað „gult herbergi“.

Barnið hefur ekki mætt í skólann frá því í september.

„22. september var barnið lokað eitt inni í stofu í skólanum á meðan starfsfólk stóð fyrir utan og fylgdist með því í gegnum rúðu á hurðinni,“ segir í kvörtuninni, endaði það með því að móðir þess kom og róaði það.

Öryggi barnsins hafi verið ógnað

Foreldrar barnsins segja að öryggi þess hafi þarna verið ógnað. Það hafi í mörg ár glímt við sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaðahugsanir. Atvikið hafa aukið kvíða barnsins auk þess sem það vantreysti fólki í kringum sig.

Barnið mætti ekki nema einn heilan dag eftir þetta atvik í skólann og þá í fylgd annars foreldris síns sem ákvað þann daginn að senda það ekki aftur þangað.

Starfsmaður á að vera í „gula herberginu“

Fjallað er um „gula herbergið“ í verklagsreglum skólans um afleiðingar vegna ógnandi hegðunar eða ofbeldis. Þar kemur fram að mikilvægt sé að „nemandi læri að það borgi sig hvorki að sýna ógnandi hegðun né beita ofbeldi“ og að það þurfi að fylgja slíkri hegðun skýrar afleiðingar sem eigi að vera nemandanum fyrirsjáanlegar en á sama tíma hóflegar og að þær megi ekki ná yfir of langan tíma.

Sé nemandi fluttur í „gula herbergið“ fer hann ekki í list- eða verkgreinar, frímínútur eða íþróttir. Hann fær ekki að borða með samnemendum sínum. Samkvæmt reglunum á alltaf að vera starfsmaður hjá nemandanum, en skýrt er í reglunum að hann á ekki að spjalla við nemanda og á að „sýnast upptekinn“.

Umboðsmaður Alþingis óskaði upplýsinga frá sveitarfélögum í fyrra um vistun nemenda í sérstökum rýmum. Í kjölfar svara var ákveðið að aðhafast ekkert en eftir ábendingar frá foreldrum, auk umfjöllunar í fjölmiðlum, hefur umboðsmaður tekið málið upp að nýju.