Fé­lag at­vinnu­rek­enda (FA) hefur sent ESA, eftir­lits­stofnun EFTA, form­lega kvörtun vegna niður­greiðslna stjórn­valda á sumar­nám­skeiðum há­skóla. Telur fé­lagið að niður­greiðslurnar hamli einka­aðilum enda nám­skeiðin haldin í beinni sam­keppni við nám­skeið á vegum fé­lags­manna FA, einka­rekinna fræðslu­fyrir­tækja.

Fé­lagið sendi Lilju Al­freðs­dóttur mennta­mála­ráð­herra erindi í síðustu viku vegna málsins en að því er segir í til­kynningu hafa engin svör borist.

Fram­lag mennta- og menningar­mála­ráðu­neytisins, 500 milljónir króna, til sumar­náms í há­skólum landsins var komið á til að bregðast við bágu at­vinnu­á­standi vegna heims­far­aldurs CO­VID-19.

„Komið hefur í ljós að drjúgur hluti þessarar fjár­veitingar rennur til endur- og sí­menntunar­stofnana há­skólanna og að nám­skeið, sem eru utan verk­sviðs há­skólanna eins og það er skil­greint í lögum, eru niður­greidd um tugi þúsunda króna. Við­komandi starf­semi er í beinni sam­keppni við nám­skeið á vegum einka­rekinna fræðslu­fyrir­tækja,“ segir í til­kynningunni.

Bent er á að há­skólarnir, sem njóta ríkis­styrkja fyrir, bjóði nám­skeið á 3.000 krónur í krafti niður­greiðslunnar. Það sé verð sem keppi­nautar þeirra geta ekki keppt við.

„FA benti í erindi sínu á aðra og sann­gjarnari leið til að styrkja sumar­nám, jafnt á vegum há­skólanna og annarra fræðslu­fyrir­tækja, en hefur ekki fengið nein svör frá ráðu­neytinu.“

Í til­kynningunni segir að FA færi rök fyrir því í kvörtuninni til ESA að út­færsla niður­greiðslunnar brjóti gegn 61. grein samningsins um Evrópska efna­hags­svæðið, en hún leggur bann við sam­keppnis­hamlandi ríkis­styrkjum, sem hafa á­hrif á við­skipti milli aðildar­ríkjanna.

„Áður­nefnd nám­skeið opin­berra og/eða ríkis­styrktra há­skóla eru meðal annars í beinni sam­keppni við nám­skeið fyrir­tækja í öðrum EES-ríkjum, sem haldin eru á netinu fyrir ís­lenska við­skipta­vini eða í sam­starfi við ís­lensk fræðslu­fyrir­tæki. Sum ís­lensk fyrir­tæki í þessum geira eru hluti af víð­tæku al­þjóð­legu neti fræðslu­fyrir­tækja. Sam­kvæmt upp­lýsingum sem FA aflaði sér hjá ESA hafa þessir ríkis­styrkir ekki verið bornir undir stofnunina af hálfu stjórn­valda líkt og t.d. ferða­gjöfin til lands­manna,“ segir í til­kynningunni þar kemur einnig fram að ESA hafi stað­fest mót­töku kvörtunarinnar.