Eftir helgina er liðið eitt ár frá ör­laga­ríku slysi sem Svava Magnús­dóttir og vin­konu­hópur hennar varð fyrir á Tenerife þegar toppur af pálma­tré féll ofan á þær, þar sem þær höfðu ný­verið sest niður á veitinga­stað.

Svava segir sögu sína í við­tali í helgar­blaði Frétta­blaðsins en hún varð fyrir al­var­legum mænu­skaða og er lömuð fyrir neðan mitti. Í við­talinu rifjar hún upp hvað tók við næstu augna­blik eftir slysið ör­laga­ríka.

Svava man eftir að hafa heyrt í sí­renunum nálgast og Írisi vin­konu sína kalla að ein­hver yrði að hugsa um Sif sem væri orðin grá í framan enda fékk hún líka tréð yfir sig og síðar kom í ljós að hún hafði líka hrygg­brotnað og hlotið á­verka á öxl.

„Ég man þessar setningar en geri mér enga grein fyrir tímanum sem fyrir mér var heil ei­lífð. Ég bað Sillu að fara ekki frá mér og lét hana lofa að koma með mér í sjúkra­bílinn.“

Lungu Svövu höfðu fallið saman og níu rif­bein brotnað vinstra megin auk þess að varan­legur skaði hafði orðið á mænu.

„Kvalirnar voru sturlaðar og ég átti mjög erfitt með andar­drátt þegar ég var sett á sjúkra­börurnar. Silla sagði mér svo eftir á að ekki hefði átt að leyfa henni að fara með mér vegna Co­vid-ráð­stafana. En eitt­hvað hef ég tekið tryllings­kastið því þeir komu svo og náðu í hana. Ég man ekkert eftir þessu.“

Silla fór með Svövu í sjúkra­bílinn og Sif ein í annan sjúkra­bíl á meðan Guð­björg og Íris tóku leigu­bíl í snar­hasti sem leið lá á sjúkra­húsið.