Kúrdar í Rojava í norðausturhluta Sýrlands lifa í mikilli óvissu eftir vendingar undanfarinna daga. Erdogan Tyrklandsforseti er sem fyrr vígreifur en Trump er meir hikandi með fyrri ákvörðun um að draga herlið frá svæðinu.

„Fólkið hérna er örvæntingarfullt, en lífið heldur áfram,“ sagði Ghazi Ali, kúrdískur bílstjóri, en jafnframt að enn gengi öll bíla­umferð sinn vanagang. „Allir eru að bíða eftir að sjá hvað gerist.“

Talið er að um leið og Bandaríkjaher yfirgefi svæðið muni Tyrkir gera árás.

„Í gær hélt Erdogan að hann gæti gert hvað sem er, en síðan vaknaði hann upp við nýjan veruleika,“ sagði vongóður kúrdískur sölumaður í bænum Qamishi. „Kannski yfirgefa Bandaríkjamenn okkur ekki.“

Þeir staðir þar sem ókyrrðin er þegar byrjuð að hafa áþreifanleg áhrif eru fangabúðirnar þar sem ISIS-liðar eru geymdir. „Ástandið er mjög óstöðugt,“ sagði embættismaður á staðnum því árásum ISIS-liða á fangaverðina hefði fjölgað til muna.