„Það er hvítt yfir – og var fjúk í alla nótt og skóf. Nú er hann kominn rétt upp fyrir núllið aftur,“ segir Indriði Aðalsteinsson, sauðfjárbóndi á Skjaldfönn.“
Kuldatíð er á heimaslóðum hans á Vestfjörðum sem og víða á nyrðri hluta landsins. Hretið kemur á vondum tíma, því sauðburður er nýhafinn.
„Já, ótíðin setur mark sitt á sauðburðinn, svona kuldi þýðir stopp á framför í gróðri, það gerist ekkert á meðan það er svona kalt. Þetta þýðir líka erfiðleika við lambærnar,“ segir Indriði.
Hann nefnir húsþrengsli þegar ekki er hægt að hleypa fénu út vegna veðurs. „Það geta alls konar sjúkdómar skotið upp kollinum þegar löng húsvist er hjá lambám.“
Indriði orti stöku í tilefni illtíðar í gær undir titlinum Vetur á ný?
Nú er úti frost og fjúk
og fjandans vetur.
Falla taka fuglatetur.
Feigðarhroll að bændum setur.
„Þetta hefur oft verið svona,“ segir Indriði og lætur sér hvergi bregða. „Í sjálfu sér er þetta það sem maður þarf að búa við á nyrstu slóðum á Vestfjörðum.“
Bóndinn á Skjaldfönn er á 81. aldursári og var sprækur þrátt fyrir ótíðina þegar Fréttablaðið ræddi við Indriða í gær. „Maður reynir að höndla þetta, en eigi að síður finn ég fyrir árunum á herðunum.“