Ísland kemur verst út í greiningu bílatryggingafyrirtækisins AE á drægi rafbíla á OECD-svæðinu. Meðaldrægi Tesla Model 3 er 296 kílómetrar í Reykjavík og Kópavogi, sem eru þeir staðir sem skoðaðir voru, en besta drægið var 374 kílómetrar.

Voru íslensku staðirnir þeir einu sem hafa drægi undir 300 kílómetrum. Næstverstu staðirnir eru Tartu í Eistlandi, Helsinki og Espoo í Finnlandi og Osló í Noregi með 307 kílómetra meðaldrægi.

Ástæðan fyrir þessu er meðalhitinn, sem er aðeins 4,3 gráður, en í kulda er rafhitun notuð í meira mæli. Besta drægið fæst í Sydney, Los Angeles og Aþenu, 351 kílómetra meðaldrægi og allt að 450 kílómetra.Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, segir að þrátt fyrir þetta sé Reykjavík, og Ísland, einstaklega góður staður fyrir rafbílaeign.

„Við búum í borgríki sem er einstakt í heiminum. Ísland er eina landið þar sem yfir 80 prósent búa á höfuðborgarsvæði,“ segir hann. „Þörfin til að fara mjög langt er því takmörkuð.“

Uppsetning hleðslustöðva gengið vel

Að sögn Sigurðar hefur uppsetning hraðhleðslu- og millihleðslustöðva á landsvísu gengið vel. Kortlagningin er hins vegar annað mál. Margir aðilar eru á markaði, til dæmis Orka náttúrunnar, olíufélögin og Tesla en ekkert gott og aðgengilegt kort er til yfir stöðvarnar. Kemur því fyrir að fólk sé óvisst um hvar stöðvar séu og hvort það komist á leiðarenda, sé það á rafbíl án bensíns eða dísilgeymis.

„Við erum að reyna að ná utan um þetta og skrá allar þessar stöðvar. Það er heilmikil vinna sem segir okkur að stöðvarnar eru mjög víða, skráðar og óskráðar,“ segir Sigurður. Gerir hann ráð fyrir að kortlagningunni ljúki í haust.Annað sem þarf að huga að er hleðsluhraðinn, en í dag tekur það mun lengur að hlaða rafbíl en að fylla olíubíl.

Sigurður telur að það ætti að vera vel mögulegt að mæta fjölgun rafbíla með fjölgun stöðva. „Það gæti farið svo að fólk þurfi að bíða í einhvern tíma á allra stærstu ferðamannahelgunum,“ segir hann. „Þessi þróun er að gerast mun hraðar en þróun bensínbílanna. Bensínstöðvunum var ekki hent upp á einum degi.“

Aðspurður um þróun rafbíla til að mæta nýtingu í kulda segir Sigurður ýmislegt að gerast. Til að mynda tilkoma varmadæla sem minnka raforkunotkunina yfir kaldasta tímann. Þá sé drægið ávallt að aukast, sem henti þeim sem það vilja. „Það er alveg hætt við því að einhverjir fari í offjárfestingu í rafhlöðum. Að þeir elti mesta drægið þegar þeir þurfa það ekki,“ segir Sigurður. Það geti borgað sig að stoppa oftar í löngum ferðalögum og borga kannski milljón krónum minna.