Hveragerði Hitasveiflur í gufuveitunni sem hitar vatn fyrir sundlaugina í Hveragerði gerir að verkum að vatnið í lauginni hefur ekki náð ákjósanlegum hita í haust. Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi, sem hefur umsjón með sundlauginni og öðrum íþróttamannvirkjum í bænum, segir reyndar alls ekki um nýtt vandamál að ræða heldur hafi glíman við kulda að vetrarlagi staðið af og til í tuttugu ár eða lengur.

„Við virðumst ekki vera að fá nógan hita með gufunni og það er verið að skoða ýmsa möguleika, bæði varðandi það sem snýr að gufuveitunni og innanhúss hjá okkur,“ útskýrir Jóhanna.

Eins og staðan er núna er hitinn í lauginni að sögn Jóhönnu 23 til 25 gráður en ákjósanlegt hitastig sé 28 til 30 gráður. Aðeins annar af pottunum sé hitaður þótt hann sé reyndar ekki alltaf eins heitur og menn vilji. Þá sé hitinn á vatninu í sturtunum óstöðugur og þær geti verið kaldar stundum. Gufubaðið sé hins vegar í góðu lagi. Skólasund hafi þó fallið niður í bili því laugin þyki aðeins of köld fyrir börnin þótt fullorðnir gestir geti vel stundað sitt sund. Aðsóknin sé enda svipuð og venjulega á haustin.

„Laugin er alveg sundfær en við viljum ná upp meira hita,“ undirstrikar Jóhanna.