Guðni Sigurðsson, starfsmaður á samskiptasviði Icelandair, segir vel hafa gengið að vinda ofan af afleiðingum niðurfellinga flugs hjá flugfélaginu síðustu helgi. Áætlunin sé komin á rétt ról, þrátt fyrir lítilsháttar seinkanir í morgun. Fyrr í vikunni sendi Icelandair frá sér fréttatilkynningu þess efnis að til stæði að leigja tvær breiðþotur með áhöfnum, með því markmiði meðal annars að koma þeim farþegum á áfangastað sem urðu fyrir áhrifum vegna veðursins.
„Þetta er annars vegar Boeing 777 sem tekur 312 farþega, sem er álíka og tveir Max-ar og hins vegar Airbus A330, sem tekur 436 farþega. Þetta hjálpaði mikið til við að vinda ofan af þessu en þær flugu aftur út í gær og eru því ekki lengur í notkun,“ segir Guðni.
Þá hafi kuldakastið sem nú gangi yfir Bandaríkin ekki nein áhrif á flugáætlun Icelandair að svo stöddu.
„Við fylgjumst að sjálfsögðu með stöðunni og látum farþega okkar vita ef það verða einhverjar breytingar. En þetta hefur ekki enn þá haft áhrif á okkar starfsemi,“ segir Guðni.
Inntur um hvort verkfall starfsmanna vegabréfaeftirlits í Bretlandi sem hófst í dag hafi áhrif á flug til og frá landinu segir Guðni svo ekki vera.
„En það gæti hins vegar komið upp sú staða að það yrði bið fyrir farþega við komuna til Bretlands, að komast í gegnum vegabréfaskoðun. En það hefur ekki áhrif á flug hjá okkur. Eins og staðan er núna er allt á áætlun,“ segir Guðni.
Allir komnir með nýja ferðaáætlun eða fengið endurgreitt
„Það voru um tuttugu og fjögur þúsund farþegar okkar sem urðu fyrir áhrifum af veðrinu og lokun Reykjanesbrautarinnar. Þau eru öll komin með nýja ferðaáætlun eða hafa óskað eftir endurgreiðslu. Þannig í rauninni var þetta komið á réttan stað í gærkvöldi,“ segir Guðni.
Að sögn Guðna er enn óljóst hversu margir hafa sent inn beiðni um bætur vegna fjárhagslegs tjóns.
„Það skýrist á næstu dögum. Við höfum verið í samskiptum við mjög marga farþega síðustu daga og það hefur verið mikið álag á þjónustuverið okkar,“ segir Guðni.
Spurður segir Guðni of snemmt að segja til um hvort flugfélagið hyggist sækja bætur vegna eigin fjárhagstjóns.
„Þetta er eitthvað sem flugfélög sem eru með heimahöfn gera ráð fyrir í sínum áætlunum, þannig að það er ekki komið á hreint enn þá. Við erum í rauninni bara búin að leggja áherslu á að koma farþegum á áfangastað. Við settum skýr markmið um það og allur okkar fókus hefur verið settur á það undanfarna daga. Og það ætlar að ganga upp,“ segir Guðni.