Guðni Sigurðs­son, starfs­maður á sam­skipta­sviði Icelandair, segir vel hafa gengið að vinda ofan af af­leiðingum niður­fellinga flugs hjá flug­fé­laginu síðustu helgi. Á­ætlunin sé komin á rétt ról, þrátt fyrir lítils­háttar seinkanir í morgun. Fyrr í vikunni sendi Icelandair frá sér frétta­til­kynningu þess efnis að til stæði að leigja tvær breið­þotur með á­höfnum, með því mark­miði meðal annars að koma þeim far­þegum á á­fanga­stað sem urðu fyrir á­hrifum vegna veðursins.

„Þetta er annars vegar Boeing 777 sem tekur 312 far­þega, sem er á­líka og tveir Max-ar og hins vegar Air­bus A330, sem tekur 436 far­þega. Þetta hjálpaði mikið til við að vinda ofan af þessu en þær flugu aftur út í gær og eru því ekki lengur í notkun,“ segir Guðni.

Þá hafi kulda­kastið sem nú gangi yfir Banda­ríkin ekki nein á­hrif á flug­á­ætlun Icelandair að svo stöddu.

„Við fylgjumst að sjálf­sögðu með stöðunni og látum far­þega okkar vita ef það verða ein­hverjar breytingar. En þetta hefur ekki enn þá haft á­hrif á okkar starf­semi,“ segir Guðni.

Inntur um hvort verk­fall starfs­manna vega­bréfa­eftir­lits í Bret­landi sem hófst í dag hafi á­hrif á flug til og frá landinu segir Guðni svo ekki vera.

„En það gæti hins vegar komið upp sú staða að það yrði bið fyrir far­þega við komuna til Bret­lands, að komast í gegnum vega­bréfa­skoðun. En það hefur ekki á­hrif á flug hjá okkur. Eins og staðan er núna er allt á á­ætlun,“ segir Guðni.

Allir komnir með nýja ferðaáætlun eða fengið endurgreitt

„Það voru um tuttugu og fjögur þúsund far­þegar okkar sem urðu fyrir á­hrifum af veðrinu og lokun Reykja­nes­brautarinnar. Þau eru öll komin með nýja ferða­á­ætlun eða hafa óskað eftir endur­greiðslu. Þannig í rauninni var þetta komið á réttan stað í gær­kvöldi,“ segir Guðni.

Að sögn Guðna er enn ó­ljóst hversu margir hafa sent inn beiðni um bætur vegna fjár­hags­legs tjóns.

„Það skýrist á næstu dögum. Við höfum verið í sam­skiptum við mjög marga far­þega síðustu daga og það hefur verið mikið álag á þjónustu­verið okkar,“ segir Guðni.

Spurður segir Guðni of snemmt að segja til um hvort flug­fé­lagið hyggist sækja bætur vegna eigin fjár­hags­tjóns.

„Þetta er eitt­hvað sem flug­fé­lög sem eru með heima­höfn gera ráð fyrir í sínum á­ætlunum, þannig að það er ekki komið á hreint enn þá. Við erum í rauninni bara búin að leggja á­herslu á að koma far­þegum á á­fanga­stað. Við settum skýr mark­mið um það og allur okkar fókus hefur verið settur á það undan­farna daga. Og það ætlar að ganga upp,“ segir Guðni.