Lífleg skoðanaskipti hafa farið fram um málefni Kúbu á umræðuhópi Sósíalistaflokksins á Facebook undanfarna viku. Skiptast netverjar þar í fylkingar með og á móti mótmælahreyfingunni sem hefur andmælt kommúnískri ríkisstjórn Miguels Díaz-Canel í mánuðinum.

Í upphafi spjallþráðarins um mótmælin lýsti Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, því yfir að sósíalistar hlytu að styðja kröfur almennings um lækkun matarverðs og betri heilbrigðisþjónustu, „þótt eflaust muni verða reynt að túlka mótmælin sem kröfu um að Kúba fari undir verndarvæng heimsvaldastefnu Bandaríkjanna.“

Enginn sósíalisti gæti stutt mótmælin

Róttækari sjónarmið hafa einnig hlotið nokkuð brautargengi innan hópsins. Vésteinn Valgarðsson, varaformaður Alþýðufylkingarinnar, lét þau orð falla að enginn sósíalisti gæti stutt mótmælin þar sem það jafngilti því að styðja að Kúba yrði „heimsvaldastefnunni að bráð og leysist upp í glundroða.“ Andri Sigurðsson, fyrrum stjórnarmaður í félagastjórn Sósíalistaflokksins og einn stjórnandi hópsins, leiddi líkur að um væri að ræða „gervimótmæli“ sem hefðu verið skipulögð af Bandaríkjamönnum. Margir aðrir þátttakendur í spjallþræðinum töldu viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Kúbu meginorsök mótmælanna og tengdu mótmælin við hægriöfgahópa á meginlandinu.

Aðeins verið að sækja eftir mannréttindum

Einnig bar þó á stuðningi við mótmælendurna. Sigríður Guðmundsdóttir, spænskukennari sem hefur búið í Rómönsku Ameríku og á kúbverskan barnsföður, fór þar hæst og sagði Kúbverja aðeins sækjast eftir mannréttindum og frelsi með mótmælunum. Sakaði hún aðra þátttakendur í spjallinu um að „ganga erinda einræðis og kúgunar“ og um að hafa ranghugmyndir um lífskjör Kúbverja. Leiddi þetta til skarpra orðaskipta á spjallþræðinum, meðal annars við Véstein sem taldi Sigríði „nytsaman sakleysingja“.

Endurspeglar aðeins þeirra viðhorf

Í samtali við Fréttablaðið segir Gunnar Smári samskiptin á spjallhópnum ekki endurspegla annað en viðhorf þeirra sem tjáðu sig þar. „Það eru um tíu þúsund meðlimir í grúppunni og aðeins fjórðungur eða fimmtungur þeirra eru meðlimir í Sósíalistaflokknum. Fólk hefur mismikla innsýn inn í þetta og er að leggja út frá hinu og þessu. Ég myndi ekki kalla þetta gáfulegustu umræðuna um Kúbu sem hefur verið til í heiminum en fólk bregst bara við með ýmsum hætti, eins og oft gerist í flóknum málum. Á Facebook reynir fólk að átta sig á hlutunum með því að tala upphátt, sem er nú ágætis hefð.“