Stjórn Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands hefur farið þess á leit við Í­þrótta- og Ólympíu­sam­band Ís­lands að nefnd verði stofnuð til að gera út­tekt á því hvernig KSÍ brást við kyn­ferðis­af­brota­málum tengdum leik­mönnum í karla­lands­liðinu. Þetta kemur fram í til­kynningu frá sam­bandinu.

KSÍ hefur mátt sæta mikilli gagn­rýni að undan­förnu og sam­bandið sakað um að hylma yfir með brotum leik­manna. Guðni Bergs­son sagði af sér sem for­maður sam­bandsins í lok ágúst og nokkrum dögum síðar gerði stjórnin slíkt hið sama. Þann 1. septem­ber fór svo Klara Bjart­marz fram­kvæmda­stjóri í leyfi en er snúin aftur til starfa, til að undir­búa auka­þing KSÍ 2. októ­ber.

Fram kemur í til­kynningunni að nefndinni sé ætlað fara yfir málið og taka til skoðunar sér­stak­lega hvort eitt­hvað sé innan KSÍ sem hindri þátt­töku kvenna innan sam­bandsins. „Þetta er gert í tengslum við full­yrðingar sem fram hafa komið í opin­berri um­ræðu um að KSÍ sé karl­lægt og frá­hrindandi fyrir konur. Í því sam­bandi verður skoðað hvort skipu­lag KSÍ eða aðrir þættir í starf­seminni séu hamlandi fyrir þátt­töku kvenna í starfinu.“

Í til­kynningunni er í­trekuð af­sökunar­beiðni sam­bandsins til þol­enda og því heitið að á­fram verði unnið að því að bæta menningu og starfs­anda innan knatt­spyrnu­hreyfingarinnar. Sam­bandið vilji að­lagast nýjum tímum og kröfum um við­brögð við kyn­ferðis­of­beldi. Til þess hafi verið leita til sér­fræðinga og ráð­gjafa.

„KSÍ for­dæmir of­beldi af öllu tagi. Knatt­spyrnu­sam­bandið er að bæta af­greiðslu of­beldis­mála og tryggja að þau fari í réttan far­veg hjá sam­skipta­ráð­gjafa í­þrótta- og æsku­lýðs­starfs eða lög­reglu. Mikil­vægt er að skapa að­stæður til að gera raun­veru­legar úr­bætur í takti við þá ráð­gjöf sem KSÍ hefur fengið og að upp­lýst sé jafn­óðum um þau skref sem stigin eru.“

Eftirfarandi atriði eru nefnd í tilkynningunni:

  • Tveir fag­hópar hafa þegar tekið til starfa hjá ÍSÍ og KSÍ sem hafa það hlut­verk að skoða ferla, vinnu­brögð og heimildir til að­gerða hjá sam­böndunum. Hægt verður að ráðast í breytingar á grund­velli þeirra niður­staðna.
  • KSÍ ætlar að bæta upp­lýsinga­gjöf innan hreyfingarinnar og til al­mennings og fjöl­miðla. Frá­farandi stjórn og starfs­menn hafa óskað eftir ráð­gjöf frá sam­skipta­fé­laginu Aton.JL fram að auka­þingi.
  • Fundar­gerðir frá fundum sem leiddu til af­sagnar formanns og síðar stjórnar eru nú að­gengi­legar á vef­svæði KSÍ. Töf varð á birtingu fundar­gerða vegna ó­venju­legra kringum­stæðna, þar sem for­maður hafði látið af störfum og fram­kvæmda­stjóri var í tíma­bundnu leyfi.
  • KSÍ mun veita nefnd ÍSÍ öll gögn sem óskað er eftir.
  • Fram­boðs­frestur vegna stjórnar­kjörs Knatt­spyrnu­sam­bandsins rennur út 25. septem­ber.
  • Lands­liðs­hópur A lands­liðs karla fyrir októ­berverk­efnin verður til­kynntur 30. septem­ber.
  • KSÍ heldur auka­þing sitt 2. októ­ber og hefur Klara Bjart­marz, fram­kvæmda­stjóri, snúið til baka úr leyfi til að undir­búa það.