Þriggja vikna gamli gríslingurinn Felix dvelur nú í Sisu dýraathvarfinu eftir að honum var bjargað af fólki sem fann hann liggjandi einan og yfirgefin á vegkanti í Norður-Karólínu fyrir nokkrum dögum. Hann á að hafa dottið eða stokkið af svínaflutningabíl sem var á leið í slátrun. Dýraathvarfið tók við Felix rétt áður en fellibylurinn Dorian skall á í Bandaríkjunum.

„Þessi krúttbomba fannst einn og yfirgefinn úti í vegkanti um daginn. Hann hafði dottið eða stokkið af svínaflutningabíl. Blessunarlega endaði Felix í dýraathvarfi og sefur nú vært eins og hvolpur í fangi þeirra sem sjá um hann. Honum var bjargað frá fólki sem borðar kjöt,“ skrifar Ragnar Freyr Pálsson, grafískur hönnuður sem gaf nýverið út appið Vegan Iceland ásamt Kristjáni Inga Mikaelssyni.

Ragnar vakti athygli á máli Felixar í færslu á Facebook en þó hann þekki ekki persónulega til Sisu dýraathvarfsins þá fylgist hann mikið með dýraathvörfum um allan heim enda vegan aktivisti og stofnandi Vegan Íslands ásamt Helgu Maríu Ragnarsdóttur í Veganistum.

Sökuð um að stela gríslingum

Sisu dýrathvarfið er í Norður-Karólínu ríki í Bandaríkjunum. Gríslingurinn Felix hefur sannarlega slegið í gegn eftir að athvarfið birti myndir af gríslingnum fyrir nokkru. Að sögn forsvarsmanna athvarfsins hafa þeim borist hótanir, þar sem þau eru sökuð um að stela gríslingnum. Þau gefa lítið fyrir ásakanirnar og segjast starfa samkvæmt lögum og reglum.

„Felix var ekki numinn á brott, hann fannst út í vegarkanti og var færður í dýragæslu þar sem við náðum í hann. Við erum búin að staðfesta alla pappírsvinnu varðandi málavextina, að hann hafi verið fundinn og var löglega leystur úr haldi frá dýragæslu Duplin héraðsins,“ segja forsvarsmenn dýraathvafsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.