Krufning á líki milljarða­mæringsins Jef­frey Ep­stein hefur leitt í ljós nokkur brot í háls­liðum hans, að því er banda­ríski miðillinn Was­hington Post hefur eftir heimildar­mönnum sínum.

Eins og Frétta­blaðið hefur sagt frá eru nú fjórir dagar síðan að Ep­stein, sem sakaður hafði verið um stór­felld brot gegn börnum sem og man­sal, fannst látinn í klefa sínum og greint var frá því að um hefði verið að ræða sjálfs­víg. Ep­stein var á sjálfs­vígs­vakt þegar hann lést.

Sam­kvæmt um­fjöllun banda­ríska miðilsins leiðir krufnings­skýrsla á milljarða­mæringnum í ljós að meðal þeirra beina sem brotin voru, var meðal annars tungu­bein hans (e. hyoid bone) sem er stað­sett nærri barka­kýlinu.

Sagt er það hafi at­vikast að um­rætt bein brotni við hengingu en sér­fræðingar sem banda­ríska blaðið ræddi við segja að brotið sé tölu­vert al­gengara hjá fórnar­lömbum kyrkinga.

Ljóst er að fréttir af skýrslunni munu blása lífi í þrá­látar sögu­sagnir og sam­særis­kenningar þess efnis að Ep­stein hafi verið myrtur en mörgum þykir að­stæður í kringum and­lát hans dular­fullar og hefur FBI meðal annars hafið rann­sókn á dauða hans.

Al­ríkis­lög­reglan rann­sakar á sama tíma barna­níðings­hring Ep­stein og ljóst að málið er gríðar­lega viða­mikið og snertir marga þekkta ein­stak­linga með ýmsum hætti, meðal annars Andrew Breta­prins sem sakaður er um að hafa káfað á barn­ungri stúlku í partýi hjá milljarða­mæringnum. FBI gerði viða­mikla leit í glæsi­villu milljarða­mæringsins á Karabíska hafinu á þriðju­daginn var.