Hópur vísindamanna hér á landi krufði tvo rispuhöfrunga sem hafði rekið á land í Hrútafirði í júlí. Beinagrindur höfrunganna verða varðveittar á Náttúrufræðistofnun.
Það voru vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun, Háskóla Íslands, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum og Tilraunastöð HÍ í meinafræði sem stóðu á bak við krufninguna.
Í júlí var Hafrannsóknarstofu tilkynnt um rekinn hval í botni Hrútafjarðar. Við eftirgrennslan kom í ljós að um tvö dýr væri að ræða. Annað þeirra hafði komið lifandi í fjöru, en héraðsdýralæknir tók ákvörðun um að aflífa það sökum þess hve veikburða dýrið var. Hitt dýrið sem rak á land var dautt.

Ekki var vitað af hvaða tegund dýrin voru, en fyrst var talið að um grindhvali eða marsvín væri að ræða. Eftir sýnatöku kom þó í ljós að um rispuhöfrunga væri að ræða.
Hafrannsóknarstofnun lagði mikið upp úr því að safna sem mestum upplýsingum um dýrin og fór starfsmaður og sótti hræin með mikilli fyrirhöfn og góðri aðstoð starfsmanna Selaseturs, landeiganda og verktaka á svæðinu. Dýrin voru ekki vel aðgengileg þar sem þau lágu annars vegar undir Markhöfða og hins vegar innst í botni fjarðarins.
Rispuhöfrungur er ein stærsta tegundin í ætt höfrunga (Delphinidae). Þeir verða 3-4 metra langir, og geta orðið allt að 500 kíló að þyngd. Þeir eru náskyldir grindhvölum. Tegundin er algeng í bæði tempruðum hafsvæðum sem og í hitabeltinu í öllum heimshöfum.
Höfrungarnir tveir, sem rak á land, voru ungur tarfur og kýr. Bæði dýrin voru mjög horuð með þunnt spiklag og líklegt er að þau hafi örmagnast sökum sultar.
Sýnum úr höfrungunum var safnað fyrir ýmiss verkefni og verða beinagrindur þeirra varðveittar á Náttúrufræðistofnun.