Hópur vísinda­manna hér á landi krufði tvo rispu­höfrunga sem hafði rekið á land í Hrúta­firði í júlí. Beina­grindur höfrunganna verða varð­veittar á Náttúru­fræði­stofnun.

Það voru vísinda­menn frá Haf­rann­sókna­stofnun, Náttúru­fræði­stofnun, Há­skóla Ís­lands, Rann­sóknaseturs Há­skóla Ís­lands í Vest­manna­eyjum og Til­rauna­stöð HÍ í meina­fræði sem stóðu á bak við krufninguna.

Í júlí var Haf­rann­sóknar­stofu til­kynnt um rekinn hval í botni Hrúta­fjarðar. Við eftirgrennslan kom í ljós að um tvö dýr væri að ræða. Annað þeirra hafði komið lifandi í fjöru, en héraðs­dýra­læknir tók á­kvörðun um að af­lífa það sökum þess hve veik­burða dýrið var. Hitt dýrið sem rak á land var dautt.

Höfrungarnir ráku á land við Hrútafjörð.
Mynd/Helga Dögg Lárusdóttir.

Ekki var vitað af hvaða tegund dýrin voru, en fyrst var talið að um grind­hvali eða mar­svín væri að ræða. Eftir sýna­töku kom þó í ljós að um rispu­höfrunga væri að ræða.

Haf­rann­sókna­rstofnun lagði mikið upp úr því að safna sem mestum upp­lýsingum um dýrin og fór starfs­maður og sótti hræin með mikilli fyrir­höfn og góðri að­stoð starfs­manna Sela­seturs, land­eig­anda og verk­taka á svæðinu. Dýrin voru ekki vel að­gengi­leg þar sem þau lágu annars vegar undir Mark­höfða og hins vegar innst í botni fjarðarins.

Rispu­höfrungur er ein stærsta tegundin í ætt höfrunga (Delp­hini­da­e). Þeir verða 3-4 metra langir, og geta orðið allt að 500 kíló að þyngd. Þeir eru ná­skyldir grind­hvölum. Tegundin er al­geng í bæði tempruðum haf­svæðum sem og í hita­beltinu í öllum heims­höfum.

Höfrungarnir tveir, sem rak á land, voru ungur tarfur og kýr. Bæði dýrin voru mjög horuð með þunnt spiklag og lík­legt er að þau hafi ör­magnast sökum sultar.

Sýnum úr höfrungunum var safnað fyrir ýmiss verk­efni og verða beina­grindur þeirra varð­veittar á Náttúru­fræði­stofnun.