Guðrúnu Karls Helgudóttur, sóknarpresti í Grafarvogskirkju, varð hvekkt við þegar hún kom til kirkjunnar í morgun og sá að krotað hafði verið yfir regnbogafána sem málaður hafði verið á stéttina fyrir utan. Skemmdarvargar höfðu tekið sig til og skrifað orðið „Antichrist“ ofan á fánann, sem málaður hafði verið til að sýna stuðning í aðdraganda Hinsegin daga.

„Við máluðum þetta fyrir rúmri viku og höfum fengið alveg ofboðslega jákvæð viðbrögð frá öllum,“ sagði Guðrún við Fréttablaðið. „Þetta var svolítið óvænt í morgun. Ég ætlaði varla að trúa þessu þegar ég sá þetta.“

Guðrún tók fram að Þjóðkirkjan stæði nú í sáttarverkefni ásamt Samtökunum ’78 sem færu fram á vefsíðu undir nafninu „Ein saga, eitt skref.“

„Verkefnið gengur út á það að samkynhneigt fólk sem hefur orðið fyrir fordómum, ofbeldi eða aðkasti frá kirkjunni í gegnum tíðina segir söguna sína og kirkjan hlustar,“ sagði Guðrún. „Sáttaverkefnið gengur út á að hlusta á allar sögurnar. Ein af ástæðunum fyrir því að við ákváðum að setja fánann þarna einmitt núna er til þess að sýna þessu verkefni stuðning.“

Búið er að hreinsa krotið burt og Guðrún segir að þetta styrki aðeins áræðni þeirra í að hafa fánann á stéttinni.
Samsett mynd/Aðsend

„Jafnvel þótt ásetningurinn sé léttvægur, þá er hann það aldrei fyrir þá sem þetta bitnar á.“

Guðrún sagði ómögulegt að segja hvort skemmdarvargurinn hafi unnið verkið af einbeittum hatursásetningi eða hvort einfaldlega um sé að ræða einfeldningsleg strákapör sem ætlað sé að ögra fólki. Hún segir það þó ekki skipta öllu máli.

„Af einhverjum ástæðum kallar þessi regnbogi fram viljann til að vinna skemmdarverk, sama með hvaða ásetningi það er. Jafnvel þó að ásetningurinn sé léttvægur og þetta sé ekki endilega fólk sem er á móti réttindum hinsegin fólks er það samt þegar upp er staðið boðskapurinn. Það er mikilvægt fyrir þá sem standa að skemmdarverki að svona gjörningur sendir skýr skilaboð. Jafnvel þótt ásetningurinn sé léttvægur, þá er hann það aldrei fyrir þá sem þetta bitnar á.“

Guðrún sagði það líka hafa hvarflað að sér að setja verkið í samhengi við bakslag gegn réttindabaráttu hinsegin fólks sem víða hefur verið talað um. „Ég vona innilega að þetta sé frekar bara einhver að leika sér sem vonar ekkert sterkt með þessu, þótt það skipti líka máli. En við höfum heyrt mikið að undanförnu um áreiti og fordóma hér á Íslandi og líka úti í heiminum. Það er einhver svona alda í gangi núna og ég er svolítið hrædd um að við séum að sjá bakslag.“

Sem betur fór voru miskunnsamir Samverjar, eða öllu heldur Svíar, á staðnum sem réttu strax fram hjálparhönd við að afmá krotið.
Mynd/Aðsend

Sem betur fór var fólk á staðnum sem var strax reiðubúið að leggja fram hjálparhönd til að afmá hatursskilaboðin. Guðrún segir að þegar hún varð vör við krotið hafi verið viðstödd sænsk fimm manna fjölskylda sem var þangað komin til að virða fyrir sér kirkjuna. Fjölskyldan hafi strax spurt hvort kirkjan ætti ekki pensla og málningu og hafi málað yfir krotið.

„Þetta styrkir þó okkur bara í því að þessi fáni verður að standa, það er alveg augljóst. Við kaupum bara meiri málningu.“