Almennar fjöldatakmarkanir fóru úr tíu í fimmtíu manns á miðnætti. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti á blaðamannafundi í gær að á næstu sex til átta vikum yrði öllum takmörkunum aflétt.

Á miðnætti tóku gildi breytingar á sóttvarnaaðgerðum. Auk breytinga á fjöldatakmörkunum tóku gildi breytingar á nándarreglu sem er nú einn metri í stað tveggja metra. Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstaðir og skíðasvæði mega hafa opið með 75 prósenta afköstum og íþróttakeppnir eru heimilar með 50 þátttakendum. Nú eru áhorfendur einnig heimilaðir á íþróttakeppnir.

Hámarksfjöldi í verslunum er 500 manns og sami fjöldi er heimill á sitjandi viðburðum. Ekki er gerð krafa á neikvætt hraðpróf hjá gestum á viðburðum. Viðhalda skal eins metra nándarreglu á milli óskyldra einstaklinga á viðburðum.

Heimilt er að opna krár, skemmtistaði og spilasali á ný og leyfilegt er að taka á móti gestum til klukkan ellefu á kvöldin en allir skulu hafa yfirgefið staðinn á miðnætti. Mikil óánægja hefur ríkt hjá eigendum og starfsfólki skemmtistaða eftir að þeim var skylt að loka enn á ný þann 15. janúar síðastliðinn en veitingastöðum og kaffihúsum var heimilt að hafa opið.

Baldur var í óðaönn við að undirbúa opnun Veður í gær þegar Fréttablaðið náði af honum tali.

Baldur Guðmundsson Hraunfjörð, vaktstjóri á Veður barnum á Klapparstíg, segist spenntur fyrir því að fá að fara aftur í vinnuna. Mikil óvissa hafi ríkt hjá starfsfólki á börum og skemmtistöðum. „Það er bara búið að vera þannig meira og minna í tvö ár að við vitum lítið um það hvenær við eigum að mæta í vinnuna og hvort við fáum útborgað.“

Þegar Fréttablaðið náði tali af Baldri var hann í óðaönn að undirbúa opnun barsins í kvöld. Hann segir að mestallt sé tilbúið enda hafi starfsfólk nýtt tímann vel í tiltekt og annan undirbúning. „Við erum búnir að mæta hérna og halda hlutunum gangandi þrátt fyrir lokanir. Þrífa og svona en það verður frábært að fá fólk inn til okkar í kvöld.“

Spurður út í þá óvissu sem hann nefnir hér að framan segir Baldur mikið álag hafa fylgt lokununum síðustu tvö ár fyrir alla þá sem starfi á börum og skemmtistöðum. „Það er náttúrulega ekki gott fyrir einn né neinn að vita ekki hvort hægt verði að borga laun eða hvort vinnustaðurinn manns loki á morgun eða opni á hinn,“ segir hann.

„Núna bara krossar maður fingur um að þessu linni og að hlutirnir séu að færast í eðlilegra horf,“ segir Baldur.