Ríkið hefur hafnað bótakröfu Arnars Þórs Vatnsdal, blóðsonar Tryggva Rúnars Leifssonar. Arnar var tveggja ára þegar faðir hans var hnepptur í gæsluvarðhald á Þorláksmessu árið 1975 vegna gruns um aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar. Arnar Þór var ættleiddur tólf ára, árið 1985, fjórum árum eftir að faðir hans losnaði úr fangelsi.

Tryggvi Rúnar var sýknaður árið 2018 eftir endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála í Hæstarétti. Hann lést árið 2009 og fengu eftirlifandi eiginkona hans og dóttir samtals 171 milljón í bætur í upphafi þessa árs á grundvelli laga sem samþykkt voru í lok síðasta árs um heimild til að greiða bætur vegna sýknudómsins.

Arnar Þór beindi nýverið kröfu um 85 milljónir í miskabætur að forsætisráðherra sem vísaði málinu til Andra Árnasonar setts ríkislögmanns.

Með bréfi dagsettu 15. júní var bótakröfunni hafnað og vísað til þess að ættleiddur sonur teljist ekki lengur barn kynföður síns í lagalegum skilningi. Þetta staðfestir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður Arnars.

„Já það er rétt, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er búin að hafna kröfu umbjóðanda míns þó að réttur hans til bóta samkvæmt lögum sem hún mælti fyrir sé skýr og ótvíræður að mínu mati,“ segir Vilhjálmur og lýsir miklum vonbrigðum með Katrínu. „Forsætisráðherrann okkar virðist hins vegar vera frábær leikkona því hún blekkti mig og fleiri þegar hún beygði af í umræðum um lögin í þinginu í fyrra. Nú er komið í ljós að hún grét krókódílstárum. Það skiptir nefnilega ekki máli hvað þú getur, heldur hvað þú gerir, en því miður virðist forsætisráðherra ekki hafa hlustað mikið á Purrk Pillnik,“ segir Vilhjálmur.

Aðspurður segir Vilhjálmur ljóst að ríkinu verði stefnt og dómstólar muni skera úr um rétt Arnars til bóta