Íslenska ríkið hefur hafnað kröfu Erlu Bolladóttur um bætur vegna Guðmundar-og Geirfinnsmála, að því er frá er greint á Mbl.is. Erla er eini aðili málsins sem gert er að una við dóm sinn óbreyttan.
Eins og Fréttablaðið greindi frá á sínum tíma óskaði forsætisráðherra eftir því við dómsmálaráðuneytið að mál Erlu yrði tekið til sérstakrar skoðunar, í maí síðastliðnum. Í ágúst ákvað Erla svo að stefna ríkinu vegna þess að endurupptökubeiðni hennar var hafnað.
Í bréfi ríkislögmanns til Erlu sem Mbl.is hefur undir höndum kemur meðal annars fram að kröfu hennar sé hafnað á þeim forsendum að hún sé ekki meðal þeirra sakborninga sem hafi fengið dóm sinn endurupptekinn og voru sýknuð. Réttarstaða hennar hafi því ekki breyst.
Krafan var lögð fram í janúar á þessu ári og var bótanna meðal annars krafist á þeim forsendum að margvísleg réttindi hafi verið brotin á Erlu í einangrunarvistinni.
Þannig hafi yfirheyrslur yfir henni ekki lotið að þeim röngu sakargiftum sem hún var að endingu sakfelld fyrir og því hafi þær ekki verið tilefni til gæsluvarðhalds.