Ís­lenska ríkið hefur hafnað kröfu Erlu Bolla­dóttur um bætur vegna Guð­mundar-og Geir­finns­mála, að því er frá er greint á Mbl.is. Erla er eini aðili málsins sem gert er að una við dóm sinn ó­breyttan.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá á sínum tíma óskaði for­sætis­ráð­herra eftir því við dóms­mála­ráðu­neytið að mál Erlu yrði tekið til sér­stakrar skoðunar, í maí síðast­liðnum. Í ágúst á­kvað Erla svo að stefna ríkinu vegna þess að endur­upp­töku­beiðni hennar var hafnað.

Í bréfi ríkis­lög­manns til Erlu sem Mbl.is hefur undir höndum kemur meðal annars fram að kröfu hennar sé hafnað á þeim for­sendum að hún sé ekki meðal þeirra sak­borninga sem hafi fengið dóm sinn endur­upp­tekinn og voru sýknuð. Réttar­staða hennar hafi því ekki breyst.

Krafan var lögð fram í janúar á þessu ári og var bótanna meðal annars krafist á þeim for­sendum að marg­vís­leg réttindi hafi verið brotin á Erlu í ein­angrunar­vistinni.

Þannig hafi yfir­heyrslur yfir henni ekki lotið að þeim röngu sakar­giftum sem hún var að endingu sak­felld fyrir og því hafi þær ekki verið til­efni til gæslu­varð­halds.