Í dag spáir Veðurstofan suðvestan 8-15 m/s og éljum á vestanverðu landinu, en það verður skýjað með köflum og úrkomulítið A-lands. Í kvöld verður hægari sunnanátt. Hiti verður í kringum frostmark að deginum, en sums staðar fyrir norðan verður vægt frost.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að langt suður í hafi sé kröpp og ört dýpkandi lægð á hraðri siglingu norður á bóginn. Eftir miðnætti á lægðin að vera farin að nálgast suðurströndina og eykst þá vindur af norðaustri. Það á svo að ganga í norðaustanhvassviðri eða -storm með snjókomu og hríðarverði austan til seint í nótt en síðar einnig NA-til með snjókomu eða skafrenningi.

Vindur snýst svo í norðvestan 18-25 m/s með éljagangi A-til á morgun, en annars verður hægari vestan- og norðvestanátt og él. Það hlýnar við A-ströndina.

Ökumenn sem ætla austur eða verða á ferli þar eru hvattir til að grandskoða ferðaáætlanir sínar því það má vænta samgöngutruflana á þeim slóðum vegna veðursins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Sunnan 5-10 m/s og úrkomulítið framan af degi, en gengur síðan í sunnan og suðvestan 10-15 með snjókomu eða slyddu, fyrst SV-lands. Hiti í kringum frostmark. 

Á sunnudag: Norðlæg átt með lítilsháttar éljum eða snjókomu, en rofar til fyrir sunnan. Lægir um kvöldið og léttir til. Hiti kringum frostmark. 

Á mánudag: Hvöss suðlæg átt með hlýindum og rigningu, en lengst af þurrt og bjart veður á norðausturhorninu. 

Á þriðjudag: Hvöss suðvestanátt og kólnar aftur með éljum, en léttir til fyrir austan. 

Á miðvikudag: Útlit fyrir hvassa suðvestanátt og hlýindi með talsverðri vætu, en þurrt að kalla fyrir austan.

Færð á þjóðvegum

Suðvesturland: Hálka eða hálkublettir á öllum leiðum. 

Vesturland: Hálka og snjóþekja er á norðanverðu Snæfellsnesi en hálkublettir að sunnanverðu en hálka á Mýrunum, Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Hálka eða hálkublettir eru í Borgarfirði. 

Vestfirðir: Þæfingur og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og á Klettshálsi. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir á öðrum leiðum og eitthvað um éljagang. 

Súðavíkurhlíð: Lokað er um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðs.

Norðurland: Hálkublettir á láglendi en snjóþekja á fjallvegum. Éljagangur og skafrenningur all víða í Skagafirði. Hálka er á flestum útvegum. 

Norðausturland: Vegir eru víðast hvar greiðfærir en hálkublettir eru á útvegum.

Austurland: Hálka er á Vatnsskarði eystra en annars eru vegir mikið til auðir. 

Suðausturland: Greiðfært er frá Höfn og vestur að Lómagnúp en hálka eða hálkublettir eftir það í Vík og yfir Reynisfjall. 

Suðurland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á öllum leiðum.