Nú síð­degis í dag og kvöld kemur kröpp lægð yfir landið úr suðri en með henni hvessir úr austri í dag. Appel­sínu­gul eða gul við­vörun er í gildi víða um land og er fólk beðið um að fara með ítrustu gát á ferðum sínum. 

Búast má við miklu hvass­viðri, víða yfir 20 m/s og jafn­vel frá 30 og upp 40 m/s á þekktum rok­stöðum. Er fólk beðið um að festa alla lausa muni vel niður og forðast ber­svæði á meðan veðrið gengur yfir. 

Í hug­leiðingum vakt­hafandi veður­fræðings Veður­stofu Ís­lands segir að þrátt fyrir að um þekkta rok­staði sé að ræða megi búast við ó­venju­mikilli veður­hæð og því tals­verð hætta á foktjóni. 

Vega­gerðin hefur gefið út að lokanir séu lík­legar á milli Hvolsvallar og Víkur, á Skeiðar­ár­sandi og í Ör­æfa­sveit seinni partinn í dag og fram til morguns. Ef til lokana kemur má búast við að þær standi fram undir hádegi á þriðjudag, 12 mars. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum, en appelsínugular viðvaranir eru í gildi um allt S-vert landið í dag frá kl. 16 og fram til hádegis á morgun, en gular viðvaranir eru einnig á flestum öðrum svæðum í nótt og til morguns.

Appel­sínu­gul við­vörun: Suður­land, Suð­austur­land og Mið­há­lendi 

Gul við­vörun: Breiða­fjörður, Vest­firðir, Strandir og norður­land vestra, Norður­land eystra, Austur­land að Glettingi og Aust­firðir. 

Fylgjast má með lokunum á vegum á vef­síðu Vega­gerðarinnar hér og við­vörunum á vef­síðu Veður­stofunnar hér

Veður­horfur á landinu næstu daga 

Á þriðju­dag: 
Norð­austan 15-23 m/s. Él um N-vert landið og rigning með A-ströndinni, annars að mestu þurrt. Dregur smám saman úr vindi og úr­komu þegar líður á daginn. Hiti 2 til 7 stig S-til, en annars ná­lægt frost­marki. 

Á mið­viku­dag: 
Hægt vaxandi suð­austan­átt og úr­komu­lítið, 8-15 m/s seinni partinn og byrjar að rigna eða slydda um S- og V-vert landið. Hiti um og undir frost­marki, en upp í 4 stig með S-ströndinni. 

Á fimmtu­dag: 
Stíf aust­læg átt með slyddu eða snjó­komu víða, en rigningu syðst. Hiti breytist lítið. 

Á föstu­dag: 
All­hvöss norð­austan­átt með snjó­komu eða éljum, en úr­komu­lítið um landið V-vert. Hiti um frost­mark. 

Á laugar­dag: 
Norð­aust­læg átt, stöku él og kólnar í veðri. 

Á sunnu­dag: 
Út­lit fyrir suð­læga átt með rigningu eða slyddu S- og V-lands, en þurrt annars staðar. Hlýnar, einkum S-til.

Færð í öllum landshlutum

Höfuðborgarsvæðið: Hálkublettir og éljagangur á öllum leiðum. 

Suðvesturland: Hálkublettir og éljagangur á Reykjanesi, Suðurstrandarvegi, á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka og éljagangur er á Reykjanesbraut og Grindarvíkurvegi. Aðrar leiðir eru greiðfærar. 

Vesturland: Víðast alveg greiðfært en þó eru sumstaðar hálkublettir. Hálka á Laxárdalsheiði. 

Vestfirðir: Hálkublettir er nokkuð víða en einnig einhver hálka. Þó er autt á láglendi við Breiðafjörð en þæfingsfærð er á Bjarnarfjarðarhálsi.

Norðurland: Aðalleiðir eru mikið til greiðfærar en hálkublettir eru á Öxnadalsheiði og á Eyjafjarðarsvæðinu, en hálka víða á útvegum. 

Norðausturland: Víðast hvar ýmist hálka eða hálkublettir en þó er snjóþekja á Hófaskarði og Hálsum. Varað er við hreindýrum við veg á Vopnafjarðarheiði. 

Austurland: Ófært er á Vatnsskarði eystra en verið að hreinsa. Hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Hálka og éljagangur er á Fjarðarheiði en snjóþekja á Fagradal. 

Suðausturland: Víða orðið greiðfært en þó hálkublettir á stöku stað. Snjóþekja er á í Eldhrauni og á útvegum. 

Suðurland: Allir helstu vegir eru greiðfærir.