Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag frá kröfu fjögurra Miðflokksþingmanna um að fara ættu fram vitnaleiðslur og öflun gagna varðandi atvik sem áttu sér stað þann 20. nóvember síðastliðinn á Klaustur Bar. Krafa þeirra snérist helst að því að komast að því hver hafði tekið upp samtal þeirra og hvernig atvikum hafði verið háttað í kringum það. 

Ekkert sem bendi til að Bára hafi átt sér vitorðsmenn

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að eftir að Bára steig fram skorti á lögvarða hagsmuni beiðni þingmannanna. Þar kemur einnig fram að rökstuðningur þeirra mætti vera skýrari en það markist þó af því að ekki sé vitað hvernig atvikum hafi verið háttað eða hvort Bára hafi staðið ein að upptökunum. En það kemur fram í beiðninni að þau telji líklegt að hún hafi átt sér einhverja vitorðsmenn.

Í úrskurði dómsins segir svo að slíkar kenningar verði að byggja á einhverju fleira en grunsemdum þingmannanna. Það sé ekkert í málinu á þessu stigi sem bendi til þess að hún hafi átt sér vitorðsmenn

Dómurinn telur því að lokum að þingmennirnir hafi ekki fært rök fyrir því að beita heimild í lögum til að framkvæma vitnaleiðslur og afla gagna og var því kröfu þingmannanna, eins og fyrr segir, hafnað.

Aðgerðin hafi haft afleiðingar fyrir líf þeirra og störf

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram dómi hafi borist beiðnin áður en Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtal þingmannanna sex, hafði gefið sig fram. Þau hafi óskað þess í beiðninni að kölluð yrðu til vitni og að dómari myndi leggja fyrir vitnin upptökur úr nærliggjandi öryggismyndavélum, svo hægt væri betur að átta sig á málsatvikum. Óskað var eftir upptökum úr öryggismyndavélum meðal annars Dómkirkjunnar og Alþingis, auk upptakna af Klaustur Bar.

Þrátt fyrir að Bára hafi síðan daginn eftir gefið sig fram héldu þau kröfu sinni til streitu og sama dag og Bára steig fram sendi lögmaður þingmannanna dóminum bréf og áréttaði beiðnina. Sagði hana ekki eingöngu snúast að því hver hefði tekið upp, heldur ætti að „leiða allar aðstæður aðrar í ljós og hvernig atvikum var í raun og veru háttað á og við staðinn umrætt kvöld.“

Þar kemur fram að með upptökunum hafi verið framið refsivert brot. Þau telji að í aðgerðinni, það er með upptöku samtals þeirra og síðar birtingu þess, „hafi falist saknæm og ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu þeirra.“ Vegna þess ættu þau að geta krafist bóta „vegna þeirra afleiðinga sem aðgerðin hefur haft fyrir líf þeirra og störf.“

Úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur er hægt að lesa hér í heild sinni.